11.08.1914
Efri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Björn Þorláksson :

Jeg stend upp vegna brtt. á þgskj 468. Hún fer í þá átt, að fjárveitingin til hælisins verði færð úr 20 þús. niður í 10 þús. krónur, og vil jeg nú skýra með fáeinum orðum, hvað vakti fyrir okkur flutnm. hennar. Jeg hefi kynt mjer skilríki þau, er hjer liggja fyrir þinginu, um fjárhag hælisins. Læknir hælisins skýrir svo frá, að hælið muni geta komist af með 10 þús. kr. fjárveitingu í ár og næsta ár. En nefndin í Nd. hefir komist að þeirri niðurstöðu, að ekki mundi minna nægja en 20 þús. kr., og mun óhætt að fullyrða, að nefndin hefir bygt þessa skoðun sína á upplýsingum, sem hún hefir fengið frá stjórn heilsuhælisins hjer í Reykjavík. Jeg get nú ekki skilið annað en að læknirinn hljóti að vita best um hag hælisins, og um það vona jeg að allir sjeu samdóma, að fjárveitingin eigi ekki að vera hærri, en ítrasta nauðsyn krefur. Þess mun tæpast langt að bíða, að landssjóður taki að sjer hælið, og ætti Alþingi að fara varlega í fjárveitingu til þess, þangað til þar að kemur. Jeg vil líka geta þess, að jeg hefi orðið þess var, að margir eru óánægðir með stjórn hælisins, og hefi jeg heyrt menn láta þá skoðun í ljós, að vel mætti stjórna hælinu svo, að það þarfnaðist ekki svo hárra styrkveitinga sem hingað til. Jeg ætla mjer ekki hjer að fara að setja út á stjórn hælisins, en vil þó nefna eitt dæmi þess, að því er ekki svo vel stjórnað sem skyldi. Mjer er sagt að töðufall sje nokkuð á Vífilsstöðum, en þó eru þar . engar kýr. Taðan er seld, en öll mjólk er keypt að. Þetta er fjártap; hælinu ætti að vera arður að því að halda kýr. Og í öðru lagi get jeg ekki annað skilið en að það sje notalegra, að minsta kosti er til sjúklinga kemur, að hafa mjólk á staðnum, heldur en að fá hana að, ef til vill misjafnlega góða. Jeg hefi heyrt menn minnast á fleira, sem ekki væri sem heppilegast í stjórn hælisins, en skal ekki fara frekar út í þá sálma hjer. — En það hygg jeg óhætt að fullyrða, að 10 þús. kr. fjárveiting mundi nægja. Jeg byggi það á orðum læknisins. En jeg vil líka benda á annað, sem gæti aukið tekjur hælisins. Meðgjöfin með sjúklingunum er óhæfilega lág. Að vísu eru margir þeirra styrks maklegir, en það er óhæfilegt, hvað efnamenn þurfa lítið að borga með sjer. Matvörur hljóta nú að stíga í verði um land alt, og því væri ástæða til þess að hækka meðgjöfina einmitt nú. Þó að vörur hækkuðu ekki í verði, væri samt ástæða til að hækka meðgjöfina, t. d. um 10%, og væri það þó ef til vill of stutt farið. Meðgjöfin með sjúklingum kemur nú 40 þús. krónum; 10% af þeirri upphæð eru 4 þús. krónur. Þetta ætti að geta hjálpað nokkuð. Að lokum vil jeg taka það fram, að jeg mun greiða atkv. á móti frv., ef brtt. mín verður feld.