05.08.1914
Neðri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

77. mál, notkun bifreiða

Einar Jónsson :

Mér leiðist hálft í hvoru að standa upp, því að hægt væri ef til vill að segja, að eg sviki loforð mitt um að tala ekki nú, eg lofaði því sem sé með því móti að aðrir hættu líka að tala. Háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) féll líka strax frá orðinu, sem hann var búinn að biðja um, en háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) gerði það ekki. (Sigurður Sigurðsson : Afstaða mín til málsins var öll önnur en þingmannsins). Afstaða háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) er nú, að hann er ekki lengur sjálfum sér samkvæmur. Hann vill spara og spara fé landssjóðs, en tefur svo dýrmætan tíma þingsins með tómu málæði. (Forseti: Eg vil minna háttv. þm. á, að málæði er óþinglegt orð). Já, eg sný mér nú líka að efninu.

Eg álít, að þótt sjálfsagt sé að setja reglur um notkun bifreiða, þá sé mjög varhugavert að hafa þær reglur þannig, að þær skerði að einhverju leyti not þau, sem hægt er að hafa af þessum samgöngutækjum. Þessi samgöngutæki eru þau hagkvæmustu, sem hægt er fyrir oss Íslendinga að fá, þangað til vér fáum járnbraut, sem er það langbezta. Tillaga á þgskj. 316, frá háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) er þannig löguð, að hún myndi skerða mikið not þau, sem hægt er að hafa af bifreiðum til flutninga; eg get ímyndað mér, að háttv. flutningsmanni tillögunnar þætti það illur farartálmi, ef hann væri á ferðalagi með bifreið, að einhver kæmi til hans og segði við hann : »Nú mátt þú ekki góðurinn minn halda lengra, því að tíminn, sem bifreiðin má vera á ferðinni, er útrunninn«. Eg álít, að það nái ekki nokkurri átt að takmarka það við vissan klukkutímafjölda, hvað bifreið megi vera lengi í ferðalagi. Annars get eg frætt háttv. þm. á því, að það eru ekki bifreiðarnar einar, sem valda farartálma á vegunum, það er eins mikið þeir, sem mæta bifreiðunum, sem tefja fyrir.

Til þess að vera stuttorður, skal eg fara fljótt yfir sögu.

Eg álít, að með till. á þgskj. 333 sé farið fram á sanngjarna réttarbót, og mun því greiða henni atkvæði.

Eg óska þess, vegna vinar mína hv. 1. þm. Árn. (S. S.) að hann taki till. sína aftur, en geri hann það ekki, þá mun eg greiða atkvæði á móti henni.