22.07.1914
Efri deild: 15. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

23. mál, tollalög

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Þetta frv. er eigi langt — ekki nema ein grein, og þessi eina grein er að eins 8. gr. tolllaganna, tekin upp með ekki miklum breytingum. En jeg vil vekja athygli á því, að þótt frv. sje stutt, er það mjög mikilvægt mál, sem þar er um að ræða.

Það er vikið að því í nefndarálitinu, að mestu tekjur landssjóðs eru tolltekjur. Til þess að sannfærast um það, þarf eigi annað en að fletta upp í fjárlögunum og líta á tekjudálkana. Það liggur því í augum uppi,hversu hættulegt það er, ef mikill undandráttur á sjer stað í þessum efnum og ef alvarlegar tilraunir eru gjörðar til að komast hjá að greiða tolla. Sem betur fer, mun til skamms tíma, að minsta kosti, ekki hafa kveðið mikið að slíkum tilraunum hjá oss. Kaupmannastjett vor mun yfirleitt vera mjög heiðarleg. En þess má geta, að freistingin til tollsvika var áður minni, er tollarnir voru bæði færri og lægri. Á seinni árum eru tollarnir orðnir bæði hærri og fleiri. Einkum fjölguðu þeir og hækkuðu þegar vörutollslögin gengu í gildi. Það stendur víst í sambandi við þetta, að sá orðrómur hefir lagst á, bæði hjer í Reykjavík og annarsstaðar, að tilraunir sjeu gjörðar til að draga toll undan. En það er samt ekki uppvíst, að verulegt tjón hafi orðið að þessu. Nefndin hefir leitað sjer upplýsinga um þetta. Hún spurðist fyrir um 3 seinustu árin, 1911, 1912 og 1913. öllu landinu hafa komið fyrir 6 slík mál, en hjer í Reykjavík ekkert. 1914 er ekkert mál enn komið til úrskurðar, en fleiri mál um þetta efni hafa verið tekin til rannsóknar, en oss er eigi heimilt að birta hjer neitt um það efni. Þessar skýrslur virðast því sýna, ef eitthvað má marka þær, að hjer sje ekki mikið um tilraunir til tollsvika. Nefndin hyggur þó, að þessar skýrslur sanni ekki mikið um tilraunir til undandráttar, því að það vantar alla sönnun fyrir, að eftirlit hafi verið nægilegt. Nefndin varð því sannfærð um, að nokkur brögð myndu vera að tilraunum til undandráttar, og að nauðsyn bæri til að skerpa refsiákvæði laganna um þetta efni. Nefndin var samhuga um, að vel ætti við að taka í eina heild öll þau ákvæði, er gilda um þetta efni. Nefndin var svo heppin, að hún var skipuð tveimur lögfróðum mönnum. Nefndin áleit, að þetta gæti ekki að eins orðið leiðbeining, heldur aðhald sumum dómurum að taka ekki of mjúkum höndum á tolllagabrotum. Nefndin kannast fúslega við, að hún hafi, ef til vill, farið of skamt í að herða á slíkum refsingum. Það er þjóðinni í heild sinni hinn mesti skaði, ef mikil brögð verða að tollundandrætti. Það er því nauðsynlegt að taka nú þegar í taumana. Lagaákvæðn duga ekki neitt, nema þeim sje fylgt fram stranglega og án manngreinarálits.

Þetta voru athugasemdir almenns efnis En nú vil jeg snúa mjer að greininni sjálfri og einstökum atriðum hennar, og þeirri viðbót, sem hún hefir inni að halda. við núgildandi lög.

Í fyrsta lagi er lágmark sektanna sett 50 kr. Nú vantar lágmarkið. Ef fast lágmark er sett, varnar það því, að menn verði dæmdir í oflágar sektir, t. d. 10–20 kr. Þetta lágmark, 50 kr., er sett af því að við fengum vitneskju um, að margir dómarar dæma ekki í lægri sektir.

Þá tókum við í greinina það ákvæði, að þeim, er uppvísir verða að tollsvikum, verði refsað eftir 155 gr. hegningarlagaanna. Jeg skal lesa upp þessa grein með leyfi forseta; hún hljóðar svo :

„Hver sem lýsir einhverju yfir og býðst til að vinna eið að því, eða gjörir það upp á æru sína og trú, og það er í þeim tilfellum, þar sem slíkt er boðið eða leyft í lögum, skal sæta fangelsi, ef það reynist rangt, sem hann hefir lýst yfir, eða sektum, ef málsbætur eru, nema einhver önnur hegning sje viðlögð í sjerstaklegum lagaákvörðunum“.

Þetta er engin ný viðbót, en með því að taka þetta ákvæði í lögin, eru dómarar mintir á að beita þessu ákvæði laganna. Og hver maður, sem kynnir sjer lögin, getur þá sjeð, að ef hann svíkur toll, þrátt fyrir drengskaparvottorð, þá er hann sekur orðinn við ákvæði hegningarlaganna. Nú koma fjöldamargir póstbögglar til landsins, og þá er heimtað af viðtakendum drengskaparvottorð um að tollskyldar vörur sjeu ekki í þeim. Þetta ákvæði er öllum þeim, er slík vottorð gefa, áminning um að fara þar gætilega.

Þá er það ný viðbót, að sá sem uppvís verður að broti í þriðja sinn, missir verslunarleyfi um 5 ár. Hjer er gjörð breyting á frv., eins og það var upprunalega. Þar stóð, að það skyldi varða kaupmenn missi verslunarleyfis. En það eru fleiri en kaupmenn, sem verslunarleyfi hafa. Margir hafa keypt verslunarleyfi, til þess að geta pantað vörur fyrir sjálfa sig frá útlöndum. Er til þess ætlast, að þessir menn missi verslunarleyfi ekki síður en kaupmenn, — annars yrði um misrjetti að ræða, — missi það við 3. brot.

Er það samkvæmt ákvæðum í lögum um verslun og veitingar áfengra drykkja, en mildara þó; þar missist leyfi við ítrekað brot.