06.08.1914
Neðri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

77. mál, notkun bifreiða

Einar Arnórsson:

Eg heyrði minst af því, sem háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) sagði um þessa meinlausu br.till. mína um það, að færa aldurstakmark bifreiðastjóra upp í 21 úr 18 árum. Hann virtist ekki skilja það, að 21 árs maður væri líklegur til þess að gæta meiri varúðar, virtist jafnvel ætla, að 21 árs gamall maður væri fremur utan við sig en 18 ára piltungur. Eg held þvert á móti, að búast megi við meiri gætni af mönnum, þegar þeir hafa náð þeim þroska. Eg hefi að minsta kosti aldrei heyrt annað. Hér er um talsvert þýðingarmikið mál að ræða — það er skamt á milli þess, sem má gera og ekki má gera, og stundum ekki nema hársbreidd milli lífs og dauða. Eg nefni sem dæmi bifreiðarferð í Kömbum. Þessi breyt.till. mín miðar að því, að auka trygginguna. (Sveinn Björnsson: Því ekki að heimta 30 ára aldur). Því þá ekki eins 25 ára aldur, eins og heimtað er við kosningar? Það verður alt af að setja einhver takmörk í lögunum, þótt þau ef til vill eigi ekki við um ella menn, og 21 ár hygg eg næst því rétta.

Hitt er auðvitað, að ekki væri rétt að setja aldurstakmark um það, hvenær menn megi taka prófið, enda er mönnum ekki meinað það með þessari tillögu þótt þeir sé yngri en 21 ára. Það var ekki spurt um aldur háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) þegar hann tók lagapróf, en þegar hann sækir um leyfi til að reka yfirréttarmálafærslumannsstörf, þá er spurt um aldur hans. Auðvitað er mér þetta ekkert kappsmál, en það miðar til þess að auka trygginguna, og þess vegna mæli eg með, að breytingartill. verði samþykt.