16.07.1914
Efri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

56. mál, varnarþing í einkamálum

Ráðherra (Hannes Hafstein); Háttv. frsm. (Stgr. J.) sagði, að það væri tekið fram í athugasemdum stjórnarinnarvið frv., að það væri að eins bót á gamalt fat. En hjer er ekki fullkomlega rjett með farið. Þar er sagt, að „sumum kunni að virðast, að það sje að ýmsu leyti að eins sem bót á gamalt fat“. En stjórninni virðist það vera meira en bót á gamalt fat. Það getur og oft komið fyrir, að menn sjeu neyddir til að bæta gömul föt. Menn hafa ekki alt af ástæður til að fá sjer ný, en kunna hins vegar ekki við að láta olnbogann standa út úr ermunum eða hnjákollana úr buxnaskálmunum, og kjósa því að bæta fötin.

Nefndin tjáir sig samþykka stefnu frv., en þykir það fara of stutt. En hví vill hún þá fella það? Hví stingur hún þá ekki upp á breytingum á því? Að minsta kosti finst mjer hart að skjóta loku fyrir, að neðri deild fái að ræða málið, úr því háttv. nefnd er samþykk stefnu þess í aðalefninu. Mjer er kunnugt, að ýmsir þingmenn þar í deild vilja gjarna fá málið til umræðu og athugunar, og álíta, að frumvarpið geti komið að góðum notum í bráð, eða að minsta kosti að það megi laga frumvarpið með litlum breytingum, svo að það komi að miklu gagni. Hvers vegna skyldi háttv. efri deild eigi leyfa það? Hið allra versta, sem af því gæti leitt, að frumvarpið yrði ekki felt hjer í deildinni, er það, að frumvarpið yrði að lögum. En úr því að háttv. nefnd er samþykk stefnu frumvarpsins, finnur því að eins það til foráttu, að það fari of skamt, þá virðist ekki hættulegt þótt það yrði að lögum. Jeg veit með vissu, að mörgum manni úti um land hefði þótt oflangt farið, ef stór, gagngjör breyting hefði verið gjörð á þessu gamla fyrirkomulagi, sem hjer ræðir um, og hinar fornu þinghár afnumdar með öllu undirbúningslaust. Það hefði mörgum þótt of stórt stökk. Jeg hygg að þetta, sem hjer er farið fram á, geti verið góður undirbúningur og vanið menn á að sækja málin þar, sem sýslumaður á heima.

Jeg ætla ekki orðlengja um þetta mál. Það er ekki svo vandasamt, að það þurfi langrar útlistunar við. En jeg vil skjóta því til háttv, deildar, hvort hún vilji ekki í öllu falli sýna það frjálslyndi, að lofa því að ganga til 3. umræðu, og verði það samþykt, tel jeg víst, að menn geti komið sjer saman um þær breytingar, sem nauðsynlegar mættu þykja, til þess að það fengi að ganga til neðri deildar, svo að henni gefist einnig kostur á að láta í ljós álit sitt á því.