23.07.1914
Efri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

72. mál, hlutafélagsbanki

Framsögum. (Kristinn Daníelsson):

Jeg hefi engu að bæta við þær athugasemdir, sem jeg gjörði þegar málið var hjer síðast til umræðu. Að vísu hefir nú komið fram breytingartillaga frá háttv. þingm. Vestm. (K. E.) og mun hann sjálfur gjöra grein fyrir henni. Við nefndarmenn höfum ekki. ráðgast okkar í milli um þessa brtt., en jeg get lýst yfir því fyrir hönd okkar tveggja, sem mest vorum á sama máli í nefndinni, að við munum aðhyllast hana, enda er það í samræmi við þær skoðanir,. er við höfum látið í ljós í nefndarálitinu,. og við það, sem jeg tók fram við 2. umr. málsins, að það yrði að ganga út frá því,. að eigendurnir ykju hlutafjeð. Sú var þá þegar skoðun okkar, þó við kæmum ekki fram með brtt. þess efnis. Það hefir og verið ásetningur bankans að auka hlutafje sitt upp í 5 milj. kr., og jeg lít svo á, að sú aukning hefði átt að fara fram, áður en þess var farið á leit, að fá aukinn seðlaútgáfurjettinn. Þegar nú bankinn hefir snúið sjer til þingsins í því. skyni, að fá aukinn seðlaútgáfurjett sinn, virðist aukning hlutafjárins allra hluta vegna sjálfsögð. Það sýnist svo sem eigendurnir geti varla farið fram á að fá aukinn seðlaútgáfurjettinn, nema þeir sjálfir hafi þá trú á starfsemi bankans til eflingar framfara og fyrirtækja í landinu og um leið til hagsmuna bankans sjálfs, að þeir vilji leggja fram fje til að auka veltufje hans, sem ásamt auknum framkvæmdum og framfarafyrirtækjum er skilyrði fyrir því, að. þörf verði á meiri seðlum, og því meira sem á þann hátt verður nauðsyn fyrir af seðlum til umferðar, því meiri verður gróði bankans. En sjálfir geta seðlarnir ekki án aukins veltufjár skapað eða aukið arðsöm fyrirtæki í landinu, eins og háttv. þingm. Vestm. tók. fram, og eins og vakti fyrir stofnendum bankans í upphafi. Þeir vildu að vísu fá ótakmarkaðan seðlaútgáfurjett í upphafi. Lýsa þeir því svo í brjefi 29. jan. 1901, að þeir vilji „faa aabnet Muligheden for successive Udvidelser af Aktiekapitalen og en í Forhold dertil staænde Seddeludgivelse.“ Það er að segja, þeir gjöra fyrst ráð fyrir hlutafjáraukningu og svo seðlaútgáfu í hlutfalli við hlutafjáraukninguna. Vil jeg að lokum láta þá ósk mína í ljós, að breytingartillaga sú, sem hjer er um að ræða, verði samþykt.