31.07.1914
Efri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

72. mál, hlutafélagsbanki

Steingrímur Jónsson :

Það er brtt. á þgskj. 177 frá háttv. þingm. Vestm. (K.E.) sem kemur mjer til að standa upp, því hún kom mjer mjög á óvart. Jeg skyldi háttv. þingm. svo síðast, að hann mundi; samþ. frumv. vegna þess að nauðsyn bæri til að auka seðlaútgáfurjett Íslandsbanka, ekki vegna bankans sjálfs, heldurvegna þess að landið þyrfti meira af seðlum en nú er heimilt að gefa út. Jeg gat því ekki vænst þess, að þannig löguð brtt. kæmi fram, enda þótt hann tæki það fram, að hann vildi hafa atkvæði sitt óbundið til þessarar umræðu. Enn fremur komu mjer undirtektir háttvirts framsögumanns (K.D.) undir tillöguna á óvart, því mjer kemur þessi brtt. svo fyrir sjónir, að með henni sje frumv. drepið, það er að segja, að sá tilgangur frumvarpsins, að bankinn geti gefið út meiri seðla á næsta hausti, sje eyðilagður. Það er ekki mikill vandi að sjá það. Menn hafa sjeð, hvað hátt hlutabrjef Íslandsbanka hafa staðið nú upp á síðkastið; þau hafa ekki verið mikið yfir 84%. Nú er venjan sú, að hlutabrjef stofnana falla í verði þegar ný hlutabrjef eru gefin út, og mjer er sagt, að nú sje ekki einu sinni hægt að selja 1 milj. í hlutabrjefum Íslandsbanka fyrir nokkurt verð. Jeg veit ekki hvort þetta er satt, en mjer þykir það mjög sennilegt, í fyrsta lagi af því að öll slík hlutabrjef standa nú óvanalega lágt, í öðru lagi af því að einmitt hlutabrjef Íslandsbanka hafa verið fallandi og standa lágt, og í þriðja lagi af því að tap það, sem bankinn hefir beðið nú nýlega, hefir rýrt álit hans ytra hjá þeim, sem eru þeir eiginlegu hluthafar, en það eru ekki Centralbankinn í Kristjaníu og Privatbankinn í Höfn, heldur þeir sem kaupa hlutabrjefin af þessum bönkum. Af þessu sjest, að það besta, sem bankinn gæti gjört, væri að selja þessa milj. kr. í hlutabrjefum fyrir 84/0, en með því móti kæmist hann í skuld við hluthafa sína, sem næmi 1 milj. kr., en fengi að eins 840 kr. þús. í staðinn, svo að hann tapaði 160 þús. kr. Þetta væri að kaupa seðlaútgáfurjettinn svo háu verði, að það getur ekki komið til mála, að bankinn gangi að því, svo að þetta er sama og að drepa frumvarpið. Þar að auki er ólíklegt, að hægt verði að selja brjefin fyrir þetta verð. En þegar bankinn getur selt brjef sín fyrir nafnverð, þá gjörir hann það áreiðanlega. Það var gjörður samningur árið 1907, um kaup á brjefum bankans, en það var gengið frá þeim samningi vegna peningavandræða þeirra, sem þá voru í Danmörku.

Af því, sem jeg nú hefi sagt, er það augljóst, að engin ástæða er til þess að koma fram með þessa tillögu; það er engin sanngirni í henni og hún er óeðlileg í alla staði. Það er ekki tilgangurinn með því að gefa bankanum leyfi til að auka seðlaútgáfu sína, að auka veltufje hans, heldur er tilgangurinn sá, að tryggja landinu meira af handbærum peningum. Veltufje bankans vex og lítið við það, þó hann gefi út meira af seðlum, því að fyrir hverjar 100 kr., sem bankinn gefur út, verður hann að leggja fyrir 37½ kr. í gulli í kjallara sínum, og hann verður að vera við því búinn að leysa alla seðlaupphæðina inn með gulli þegar í stað, þegar komið. er yfir vist lágmark, sem alt af er í umferð hjá landsmönnum. Það er og hægt að sýna fram á, að það er aldrei venja að setja það samband á milli hlutafjárupphæðar og seðlaútgáfu, sem hjer á að gjöra ; það lítur helst út fyrir að meiningin með tillögunni sje sú, að hlutafjárupphæðin eigi að vera hærri en upphæð útgefinna seðla. En aðaltryggingin fyrir seðlunum er ekki hlutafjeð, heldur er það í fyrsta lagi gullforðinn og í öðru lagi það, að sett sjeu takmörk fyrir seðlaútgáfunni, svo að bankinn gefi ekki út seðla í vitleysu, og í þriðja lagi að haft sje eftirlit með því, að trygging bankans fyrir seðlunum sje í lagi. Hitt er auðvitað, að bankinn verður að hafa nokkurt veltufje til þess að geta komið seðlunum út.

Jeg hefi aflað mjer upplýsinga um hlutfallið á milli seðlaútgáfu og hlutafjár hjá þeim seðlabönkum, sem eru næstir okkur. Þjóðbankinn danski hefir rjett til þess að gefa út eins mikið af seðlum og hann getur komið út, að eins ef hann hefir 50% gullforða fyrirliggjandi. Að jafnaði eru í umferð 120–140 milj. kr. af seðlum hans. Stofnfje bankans er 27 milj. kr., en auðvitað á bankinn stóran varasjóð, jeg veit ekki hve mikinn. Það sjest á þessu, að þess hefir ekki verið krafist af þinginu danska árið 1908, þegar seðlaútgáfuheimild bankans var rýmkuð, að hlutafje bankans væri aukið. Noregsbanki hefði árið 1913 gefið út 118 milj. kr. í seðlum, en hlutafje bankans var 25 milj. kr. Svipað er að segja um Svíþjóð. 30/6 1899 höfðu bankar þar úti 148 milj. kr. í seðlum en stofnfje ríkisbankans var 50 milj. kr.; en auðvitað var þar annar banki, sem gaf út nokkuð af seðlum.

Jeg get því ekki sjeð, að það sje ástæða til að koma fram með þá brtt., sem hjer liggur fyrir, og jeg álít ekkert unnið með henni. Vitanlega selur bankinn hlutabrjef sín, þegar hann getur, en þó við þröngvuðum honum til þess að gjöra það nú þegar, þá er tvísýnn hagurinn af því. En engin trygging sett gegn því að bankinn byrjaði á djörfum „spekulationum“, sem hætta stafaði af.

Háttv. þingm. Vestm. (K. E.) sagði, að það væri innanhandar fyrir Privatbankann í Khöfn og Centralbankann í Kristíaníu, að auka hlutafje bankans, ef þeir að eins hefðu vilja til þess. En vitanlega ráðast þeir bankar ekki í neitt fyrirtæki, nema þeir álíti það arðvænlegt og skynsamlegt. Þar að auki er það ekki rjett, að þessir bankar sjeu hluthafar í Íslandsbanka, þeir hafa að eins takið hlutabrjef hans til sölu. Jeg verð enn þá að taka það fram, að það mundi verða málinu til hins mesta tjóns, ef brtt. yrði samþykt, og þar að auki felst í henni vantraustsyfirlýsing á hendur Íslandsbanka. Jeg er sannfærður um, að erlendir bankamenn mundu líta sem svo á þetta mál: Hvaða vit er í því að vera að gefa út ný hlutabrjef, þar sem hin gömlu hlutabrjef eru fallin svo mjög í verði? Annað hvort er það meiningin að reyna að „spekulera“ þau upp aftur, eða að þetta er gjört til þess að halda , bankanum á floti!

Jeg mun nú ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Jeg mun greiða atkvæði á móti brtt; en þó að hún verði samþykt, mun jeg engu síður greiða atkvæði með frv. Og gjöri jeg það þá í þeirri

von, — og að eins í þeirri von, — að háttv. Nd. muni bæta úr skák. Því að frv., þannig breytt, yrði aldrei annað en gagnslaus og hlægileg ómynd.