11.08.1914
Efri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

72. mál, hlutafélagsbanki

Framsögum. (Kristinn Daníelsson):

Þetta mál má kallast gjörbreytt frá því, sem það var, þegar það fór hjeðan til Nd. Það hafa verið gjörðar svo verulegar breytingar á því, að það má heita annað frumvarp. Þá var bankanum heimilt að gefa út 2 milj. kr. umfram málmforða. Nú er þessu. breytt þannig, að nú er honum heimilað að gefa út aðeins 500 þús. kr. í seðlum, fram yfir það, sem hann nú má gefa út,. og að lög þessi gildi ekki lengur en til: loka októbermán. 1915. Um leið er og því skilyrði slept, að bankinn auki hlutafje sitt, en aftur á málmforðatryggingin að vera 50%.

Í þessari mynd er þá málið til vor aftur komið. Jeg get nú vísað til nefndarálitsins um afstöðu nefndarinnar. Meiri hlutinn leggur til, að frv. verði samþykt óbreytt, eins og það kemur frá Nd. Ætla jeg svo ekki að segja meira fyrir hönd meiri hlutans, en gera grein fyrir skoðun okkar, er áður vorum minni hluti í málinu. Að vísu hefir stuttur tími verið til samanburðar um málið, svo að jeg tala mest frá mínu eigin brjósti.

Jeg og háttv. samnefndarmaður minn, sem er með mjer í minni hlutanum, töldum alt af varhugavert, að auka seðlaútgáfurjett bankans. Síðan málið var hjer í deildinni í fyrra sinni hafa fleiri gögn komið fram í því, skoðun minni til stuðnings. Jeg hygg, enn sem fyr, ekki rjett, að auka seðlaútgáfurjett bankans, nema fyrirkomulagi hans sje gjörbreytt um leið, þannig að eftirlitið sje stórum aukið. Þetta hefir komið í ljós í umr. í Nd. Það hefir verið viðurkent, að ekki væri rjett að veita aukning á seðlaútgáfurjettinum, nema gjörð væri gagngjör breyting á skipulagi bankans. Má heita svo, að öll nefndin í Nd. hafi viðurkent þetta. Þeir tveir menn, sem hafa ekki óskorað skrifað undir nefndarálitið, hafa ekki mótmælt þessu, eins og sjá má á þgskj. 405. Þeir tjá sig andvíga ýmsu í nefndarálitinu, en ekki þessu atriði. Og þeir, sem hafa lagt til að auka seðlaútgáfurjettinn, hafa aðeins gert það til bráðabirgða og sem neyðarúrræði. Það, sem mjer þykir á vanta, er það, að sýnt sje fram á, að brýn þörf sje á þessari aukningu. Það var sýnt fram á það við fyrri umræður málsins, að það væri engin þörf á henni á næsta ári. Því mun að vísu haldið fram, að stríðið skapi bráða og brýna þörf á honum. Jeg held aftur, að þörfin á auknum seðlaútgáfurjetti verði þá einmitt minni, sökum þeirrar deyfðar, er þá kemur í alt viðskiftalíf. Það er og hægt að grípa til annara gjaldmiðla, ef þörfin krefur. Aðalatriðið er að gjörð verði breyting á fyrirkomulagi bankans, þannig að eftirlitið verði aukið áður en seðlaútgáfurjetturinn er aukinn.

Það er sagt, að þessi rjettur sje að eins veittur til bráðabirgða og að hann ætti að falla úr sögunni á næsta ári. En jeg þykist samt vita, að sú sje ekki tilætlunin. Það var farið fram á þessa sjerstöku aukningu áður en þessar sjerstöku ástæður, sem nú eiga að valda mestri þörfinni á aukningu seðlaútgáfurjettarins, komu til. Þetta mundi verða fyrsta sporið á þá braut, er æ yrði farin lengra og lengra. Það mundi lýsa meira vantrausti á bankanum, að taka af honum þennan rjett þá, heldur en neita honum um hann nú. Eins og oft hefir verið tekið fram hjer, eru seðlar ekki veltufje, heldur gjaldmiðill, er vera á í umferð manna á milli. Aukning veltufjár og seðlaútgáfurjettar ætti því að fara saman,. eins og ætlast var til, er frv. fór hjeðan, en það hefir verið felt burt í Nd. Jeg skal ekki neita því, að það sje ómögulegt nú, þótt það væri hægt þá. En ef engin tök eru á að auka veltufjeð nú, tel jeg best að málið hvíli. Það kann að vera rjett, að að því komi, að bankinn þurfi og verði að fá aukningu á seðlaútgáfurjettinum, en mjer virðist ekki rjett, að gjöra það fyr en eitthvað það kemur á móti, sem samsvarar þeirri ábyrgð, er landssjóður tekur á sig, er hann veitir þessa aukning. Jeg skal lúka máli mínu með þeirri tillögu, að þetta mál nái ekki fram að ganga og leyfi mjer að bera upp rökstudda dagskrá svo hljóðandi:

Í því trausti að stjórnin taki til athugunar hvort ekki sje ástæðu til, áður en seðlaútgáfurjettur Íslandsbanka er aukinn, að breytt verði fyrirkomulagi bankans og eftirliti með starfsemi hans, sjerstaklega með tilliti til þess, sem fram hefir komið við meðferð málsins á Alþingi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.