21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Framsögum. minni hl. (Stefán Stefánsson):

Eg vona, að ekki þurfi langar umræður um þetta mál; það er svo óbrotið, enda í nefndarálitum meiri og minni hluta nefndarinnar gerð nokkurnveginn ljós grein fyrir því.

Eg þykist vita, að háttv. þingdeildarmenn hafi kynt sér, hvaða breytingar farið er fram á í þessu frumvarpi, sem sé þær, að stjórnarráðið er leyst frá því, að panta baðlyf, en hverjum fjáreiganda veitt heimild til að kaupa þau þar sem hann helzt óskar og þegar hann vill. Í Eyjafjarðarsýslu, er það svo, að allur almenningur þar er mjög óánægður yfir þessum fyrirskipuðu reglum um baðlyfjakaupin. Bændur þar segja: »Við böðum fénað okkar, en við viljum sjálfir fá að ráða því, hvar við fáum baðlyfin«. (Sigurður Sigurðsson: Verðið er þó betra, ef stjórnarráðið útvegar baðefnin). Þetta er sú eina nýta ástæða, ef nýta skyldi kalla, sem fram hefir komið gegn þessu frv., því líkur vóru til þess, að með svo mikilli pöntun á baðlyfjunum, mundu þau verða eitthvað ódýrari, en ef hver einstakur fjáreigandi keypti þau hjá sínum viðskiftamanni. En nú reynist þetta svo, að baðlyf þau, sem stjórnarráðið hefir auglýst, eru ekki einasta eins dýr og baðlyf þau, er menn geta fengið með frjálari verzlun, heldur er eitt þeirra miklum mun dýrara, og hver er þá vinningurinn ?

Háttv. meiri hluti nefndarinnar ber fyrir sig álit dýralæknis um málið, hvað það snertir, að frumvarpsbreytingin muni veikja eftirlitið með böðununum, En nú er því svo farið, að eftirlitið verður alveg sama sem áður. Hreppsnefndir og bæjarstjórnir eiga, eftir sem áður, að hafa eftirlitið á hendi. Það eru aðeins pantanir baðlyfjanna, sem nú hvíla á hreppsnefndunum, og afskifti stjórnarráðsins af útvegun þeirra, sem kipt er burtu, enda virðist svo, sem þetta tvent, ætti að vera öldungis óþarft skilyrði fyrir því, að þrifaböðin fari fram árlega. Í þessu sambandi er líka vert að meta nokkurs þá ástæðu, að pöntun baðefna á vorin og greiðslukrafa á andvirði þeirra þá, á hinum óheppilegasta tíma, vekur hina mestu óánægju. Í það minsta hefir það komið í ljós allvíða í Eyjafjarðarsýslu, og það vil eg taka fram, að dýralæknirinn, sem sat á fundi með nefndinni, lét það ótvírætt í ljós, að einmitt þessi ákvæði laganna, sem nú á að fá breytt, mundi vekja mestu mótspyrnu meðal fjáreigenda. Það er því engu síður til inntekta fyrir okkur minni hluta nefndarinnar en meiri hlutann, hans álit. Hins vegar sætta menn sig vel við það, að stjórnarráðið ákveði, hver baðlyf skuli nota.

Annars hefir dýralæknirinn á Akureyri skrifað blaðagrein um þetta mál, þar sem hann álítur núgildandi lög um sauðfjárbaðanir fjarstæðu, og telur það óhafandi, að bændum sé gert að skyldu að kaupa sérstök baðlyf, fyrst hér sé aðeins um þrifaböð að ræða.

Svona langt fer þó frv. ekki; því svo er þó til ætlast, að ákveðið baðefni verði brúkað. Dýralæknirinn á Akureyri telur lögin einokun og kveðst ekki skilja, að bændur taki því með þökkum, að mega ekki kaupa og panta þetta efni, þar sem þeir hafi önnur verzlunarviðskifti. Og eg þykist þess fullviss, að þótt frv. nái ekki samþykki þingsins nú, að þá verði ekki langt að bíða þess, að óskir koma fram um sviplíkar breytingar. (Sigurður Sigurðsson: Frá

Eyfirðingum). Eg kannast ekki við það, að Eyfirðingar hafi farið fram á jafn ómerkilegar, og mér liggur við að segja, barnalegar lagabreytingar á þinginu, sem Árnesingar, og situr því illa á hv. 1. þm. Árn. (S. S.), að kasta hnútum til annara í þessu sambandi.

Það kann vel að vera, að sumum þingmönnum þyki of fljótt að breyta lögunum. En það er þó sýnilegt, að þau hafa að geyma óeðlilegt ákvæði, eru illa þokkuð og gera ekki baðlyfin ódýrari, eins og sést á skýrslu stjórnarráðsins. Mér finst því nokkuð í því, sem dýralæknirinn á Akureyri bendir á, að lögin muni skapa einokun. Að leggja mikið upp úr því áliti dýralæknisins hér, að frv. muni veikja eftirlitið, finst mér óþarfi og ástæðulítið. Á því hefir hann ekki meira vit en hver annar.

Að svo mæltu skal eg leyfa mér að óska þess, að frv. nái fram að ganga hér í deildinni, og verði afgreitt til hv. Ed., svo að hún fái að segja álit sitt um það. Getur hún þá, ef henni þóknast, varnað því framganga.