11.07.1914
Efri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

24. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Flutningsm. (Kristinn Daníelsson) Jeg hefi leyft mjer að koma fram með þetta litla frv. Það er samt ekki svo að skilja, að jeg sje frumhöfundur þess eða hafi fundið upp efni þess, heldur er það gömul og ítrekuð ósk þeirra, er hjer eiga hlut að máli, sem hjer á að reyna að fullnægja. Mjer hafa úr kjördæmi mínu borist áskoranir um þetta efni, og frá Fiskifjelagi Íslands hafa komið áskoranir um, að botnvörpusektir verði hækkaðar. Jeg hefi frá upphafi vega álitið þessar sektir of lágar í samanburði við þann mikla útveg, er hjer á hlut að, botnvörpuveiðarnar. Sektirnar eru svo lágar, að þær ná eigi tilgangi sínum, sem er sá, að vernda fiskiveiðar á opnum bátum.

Frá landnámstíð hafa fiskiveiðar á opnum bátum verið önnur aðalatvinnugrein vor Íslendinga. Það er gleðilegt, að nú er farið að stunda fiskiveiðar á annan og stórfenglegri hátt, en þær verða þó lengi enn einn aðalatvinnuvegurinn, og þær hafa gefið mikið í aðra hönd — margur stórefnast á þeim. En einkum er það fjöldinn, sem græðir á þeim, verður að hafa þær til lífsframdráttar. Gróðinn verður mikill, er hann er lagður saman um land alt, þótt einstakir hlutir sjeu ekki stórir. En síðan botnvörpuveiðar byrjuðu, vofir sá vogestur svo yfir þessari atvinnugrein, að til eyðingar horfir. Það er barátta upp á líf og dauða fyrir sjómenn, að verja bjargræði sitt fyrir þessum vogesti. Og jeg minni á það, sem háttv. þingmönnum er kunnugt, að verið er að gjöra hjer í suðurveiðistöðvunum, að halda uppi með ærnum og ofvöxnum kostnaði vörnum gegn botnvörpuveiðum í landhelgi. Svo mikið þykir þar í húfi.

Því hygg jeg, að hækka þurfi einkum lágmark sektanna, sem venjulega er dæmt eftir, og það er efni frv., sem sje, að í stað 1000 kr. til 4000 kr., sem sektirnar eru nú, verði þær 2000–6000 kr., og í stað 200–2000 kr. í 3. gr. komi 400–3000 kr.

Jeg vona, að háttv. deild taki vel þeirri tilraun, sem gjöra á hjer, til þess að lögin, ef unt er, nái tilgangi sínum betur en til þessa. Það er auðvitað ekki víst, að ákvæði frv. fæli botnvörpunga frá veiðum í landhelgi. Þá er uppgripaafli er í landhelgi, getur vel verið, að þeir vilji vinna það til veiða þar, að greiða eins háar sektir og hjer farið er fram á. En þetta frv. horfir þó í áttina, og það getur haft sín áhrif, að ala á þessu og löggjöfin minni á, að þetta sje henni alvörumál. Leyfi jeg mjer að stinga upp á 3 manna nefnd í málið að þessari umræðu lokinni.