30.07.1914
Sameinað þing: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

102. mál, handbært fé landssjóðs komið í gull

Hannes Hafstein:

Jeg gjöri ráð fyrir að nú sjeu um 1600 þús. til 1800 þús. kr. úti af seðlum Íslandsbanka, og nemur þá sá málmforði, sem bankinn hefir til tryggingar þeim seðlum, um 6–700 þús. kr., þar af í gulli sjálfsagt yfir 450 þúsundum. Og landssjóður hefli nú svo mikið fyrirliggjandi af seðlum Íslandsbanka,að ef hann heimtaði þá alla innleysta þegar í stað með gulli, eins og þingsályktunartillagan virðist benda til, þá gengi til þess allur gullforði bankans. (Kl, J.: Hann hefir ekki svo mikið). Landssjóður hlýtur að hafa svo mikið alt í alt. En að taka þannig alt gullið frá bankanum, væri sama sem að sprengja bankann. Hvar stæði hann með innlausn allra hinna seðlanna, sem hann yrði að kalla inn og mætti ekki hafa úti, þegar gullforðinn væri farinn? Hann yrði auðvitað þegar að stansa. En slíkt væri stór háski fyrir landið í heild sinni, viðskiftalífið inn á við og lánstraust landsins út á við, og þarf vissulega til alt annara ráða að taka. Jeg skal til vonar og vara taka það fram, að jeg tel óhugsandi, að háttvirtir tillögumenn hafi vísvitandi viljað stofna bankanum í voða. En orðalagið hefir óvart orðið þannig í flýtinum, að mjer virðist tillagan ótæk.