12.08.1914
Sameinað þing: 8. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

122. mál, gerð íslenska fánans

Skúli Thoroddsen:

Jeg er einn hinna mörgu, sem undir nefndarálitið hafa skrifað „með fyrirvara“.

Ástæðan er sú, eins og tekið er fram í nefndarálitinu, að það var skoðun mín, sem og háttv. þm. Dalam. (B. J.), að rjettast hefði verið, að þingið hefði óskað þess, að konungsúrskurðurinn frá 22. nóv. 1913 væri ekki látinn koma til framkvæmda að svo stöddu.

Þingið 1912 — eða þó öllu heldur efri deild þess — óskaði þess, sem og kunnugt er, að fyrir næsta Alþingi yrði lagt frv. um full. kominn verslunar- og siglingafána. En í stað þess, að sinna tjeðri ósk efri deildar, var gefinn út konungsúrskurðurinn frá 22. nóv. 1913, þar sem Íslandi er að vísu veittur sjerstakur fáni, en í sömu andránni, sem hann er viðurkendur, sem fáni Íslands, þá er hann óvirtur á þann hátt, að hann má ekki sjást utan landhelginuar, og að danski fáninn er æ löggildur jafnhliða honum, og hann, þ. e. „Dannebrog“, þarf ekki að dragast niður, þótt út fyrir landhelgina komi.

Auk þess, er þegar hefir getið verið, þá er það og — í konungsúrkurðinum frá 22. nóv. 1913 — skýrt tekið fram, að því er til stjórnarráðshússins kemur, að þar skuli danski fáninn æ og einatt blakta jafnhliða íslenska fánanum, og á ekki óveglegri stað en hann.

Það verður því ekki annað sagt en að hjer sje hálfleiðinlega á stað farið, og að betra hefði því verið, að alt hefði gengið, eins og að undanförnu. þ. e. þeir notað íslenska fánann, sem það vildu, en hinir látið það ógjört.

Það, að danski fáninn er löggiltur fáni hjer á landi, jafnhliða íslenska fánanum, kemur sjer og eigi hvað síst illa, þegar litið er á það, að verslunarstjett vor er yfirleitt enn ekki svo íslensk í anda, eins og sjálfsagt ella má vænta, að hún verði, er tímar líða, svo að danski fáninn verður því í framkvæmdinni eigi að eins rjetthærri, er út fyrir landhelgistakmörkin er kominn, heldur má og óefað vænta þess, að hann verði eigi óvíða hjer á landi og innan landhelginnar, jafn vel fremur notaður en íslenski fáninn, — þyki eitthvað veglegri (!) og mennirnir þá meiri (!).

Mjer hefði og þótt það æskilegra, að konungsúrskurðurinn hefði ekki komið til framkvæmda, þegar á það er litið, að hætt er við, að hann dragi úr áhuga manna, að því er til þess kemur, að fá fullkominn siglinga- og verslunarfána, — gjöri það og að verkum, að mótspyrnan, þ. e. frá dönsku hliðinni, verði nú og enn sterkari gegn honum en ella.

En að vjer höfum bæði siðferðilegan og lagalegan rjett, til að fá fullkominn verslunar- og siglingafána, verður eigi vefengt. — Það hafa Danir sjálfir viðurkent, með ákvæðum stöðulaganna, eins og jeg hefi rækilega sýnt fram á, á fyrri þingum, — sbr. þá og þingsályktunartillögu mína, um sambandsmálið, á þinginu, sem nú stendur yfir —, og árið 1908, í millilandanefndinni, vildu Danir og jafnvel ganga svo langt, að láta oss fá fullkominn siglinga- og verslunarfána, að fám árum liðnum. —

En í nefndinni stóðum við tveir einir uppi, er skoðun þessari fylgdum fram, þ. e. jeg, og háttv. þm. Dalam. (B. J.), — allir hinir mjög einhuga á því, að þiggja það ofur þakksamlega, sem nú er í boði, og ekki til neins, að nefna fullkominn siglinga- og verslunarfána.

Í augum samnefndamanna okkar, var það, sem dýrindis happ, að hafa fengið þennan konungsúrskurð, og kvíðinn því eigi lítill, að konungur kynni að kippa ella að sjer hendinni, og láta oss verða af hnossinu, ef úrskurðurinn væri eigi þeginn. —

Þeir grátbændu okkur því — sumir samnefndarmennirnir —, mig og háttv. þm. Dalam. (B. J.), að gjöra það fyrir sig, að koma ekki með þingsályktunartillögu þess efnis, að þingið geymdi sjer æ óskertan rjett sinn, — teldi oss hafa rjettinn til fullkomins siglinga- og verslunarfána engu að síður, þótt konungsúrskurðinum væri eigi hafnað. —

Þingsályktunartillagan, er hjer að lýtur, var fullsamin af mjer, en af því að við erum góðsamir menn, og farinn var að okkur bónarvegurinn, þá ljetum við loks tilleiðast, og hættum þá og við það, að bera hana fram, — vildum og síður, að hún yrði feld hjer í deildinni.

En þrátt fyrir það, þó að jeg sje þessa sinnis, get jeg þó auðvitað vel látið skoðun mína í ljósi, að því er það snertir, hvaða fána gerð jeg helst vildi hafa, og er þá fljótt yfir sögu að fara. Bláhvíta fánann gamla hefði jeg þá helst kosið, — ekki reyndar af því, að mjer þyki hann neitt sjerlega fallegur, heldur af hinu, að það hygg jeg þjóðinni næst skapi. —

Á hinn bóginn býst jeg nú varla við því, að það verði ofan á, að bláhvíti fáninn fáist, en að honum frágengnum, vona jeg, að ráðherrann beri þá fram stjörnufánann til sigurs. — Hann er og „bláus“ — þ. e. blá hvíti fáninn — í enn fegurri mynd.

Hvað mig snertir, hefði jeg annars helst kosið, að í efri stangarreit blá-hvíta fánans, hefði og — til fegurðar — verið höfð mynd af gjósandi eldfjalli á grænni rót, og tæki síðan við hraunlitur, en þá ís og snæliturinn, en síðan síeldloga súlan. –

Þetta ætti þá að tákna það, að Ísland — sbr. og græna litinn — væri land vorgróðurs og vona, og þótt landið væri hrjóstrugt, og ískalt, þá byggi þó fjörið og eldurinn sí og æ í brjóstum landsins barna, — ætti þá og að bera þann sí-boðskapinn til þjóðanna, að eins og eldurinn æ er hið hreinsandi og eyðandi aflið, svo ætti og æ ríki tilfinninganna — þ. e. sí-tilfinningin þess, að hið illa, ranga, á eigi að þolast, — sí og æ, og hvívetna, að sópa burt öllu hinu óhreina, illa og rotna, sem enn er á jörðinni. —

En slíkri breytingu varð nú eigi fram komið í nefndinni, og mun jeg því, er til kemur, greiða tillögunni um þrjár fánagerðirnar atkvæði, í von um, að blá-hvíti fáninn, eða þó stjörnufáninn, fáist þá fremur en ef að eins væri um blá-hvíta, og þrílita, fánann að velja. —

Að svo mæltu sje jeg ekki ástæðu til þess, að fara frekari orðum um málið, en vænti þess að sá tími komi — þótt illa sje af stað farið — er fáni Íslands ber nafn Íslands, og íslensku þjóðarinnar, æ víðar, og víðar um veraldar-höfin.