25.08.1914
Sameinað þing: 8. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

122. mál, gerð íslenska fánans

Ráðherra (S. E.):

Jeg finn ástæðu til þess, út af þeim ummælum háttv. 6. kgk. (G. B.) að menn ættu að tala um þetta mál frá sjónarmiði skynseminnar, en ekki tilfinninganna, að slá því föstu að tilfinningarnar stóðu allfast bak við ræðu hans. Mjer hefir skilist það, að tilfinningin fyrir norsku þjóðinni væri frá hans sjónarmiði höfuðstuðningur þrílita fánans. Þó fáni þessi líkist norska fánanum allmikið, þá verður hann ekki í mínum augum fegurri fyrir það, eins og bláhvíti fáninn verður ekki óveglegri í mínum augum, þó hann, eins og háttv. 6. kgk. tók fram, líkist danska fánanum.