13.08.1914
Sameinað þing: 9. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

130. mál, gjaldmiðill

Skúli Thoroddsen:

Jeg var ekki á flokksfundi, er rætt var málið, sem hjer um ræðir. — En þegar jeg lít á tillöguna. eins og hún liggur hjer fyrir, dylst mjer eigi, hve mjög hún ber það með sjer, að hún er samin í flýti, og þótt jeg neiti því síst af öllu, hve nauðsynleg hún er í sjálfu sjer, þá blandast mjer ekki hugur um, að varla er fært, að samþykkja hana óbreytta, og væri því óefað rjettast, að gjört væri nokkurt fundarhlje, svo að tími vinnist til, að koma sjer saman um nauðsynlegustu breytingarnar að minsta kosti.

Meðal annars, sem óglögt er í tillögunni, er það, hvort sú er tilætlunin, að gefa að eins út gjaldmiðil eða skírteini, sem svari til þeirrar upphæðar, er Íslandsbanki telur sig þurfa. Eða má einnig lána Landsbankanum, og öðrum, er trygging bjóða, ef þörf gjörist?

Mjer skildist á hv. flm. (S. B.), að tillaga þessi væri komin fram af því, að frv. um aukin seðlaritgáfurjett Íslandsbanka strandaði í efri deild, og veit vel, að svo muni vera; en þótt það hefði verið afgreitt, sem lög frá þinginu, hefði það ekki verið fullnægjandi.

Jeg vakti máls á því hjer í deildinni (þ. e. neðri deild) nýskeð, að mjer virtust svo miklir alvörutímar, að full þörf mundi á, að búa svo um hnútana, að báðum bönkunum, Íslandsbanka, og Landsbankanum væri veittur nýr gjaldmiðill, er til mætti grípa, í peningavandræðunum, er af ófriðinum stafar, — benti og á, að fráleitt myndi þó af veita, þótt 1–2 milj. kr. næmi.

En enn þá hefir þó þessum aðvörunum mínum ekki verið gaumur gefinn, fyr en þá nú að þessu leyti. —

Annars vil jeg benda á, að eigi þingsályktunartillaga þessi, að koma að gagni, þá er nauðsynlegt, að landsstjórnin vindi nú mjög bráðan bug að því, að gefa út bráðabirgðarlögin, um útgáfu nýs gjaldmiðils — gæti þess og, að verða þar eigi of sein fyrir.

Jeg sá þess getið í blaði í dag, að tundurduflum hefir að mun verið sökt niður í Norðursjóinn, svo að sigling er þar ekki örugg og á hverri stundu getur og símasambandið við Danmörku verið úr sögunni. —

Og hvernig fer þá?

Jeg tek það því upp aftur, að hjer þarf að vinda bráðan bug að, og breyta og tillögunni þannig, að stjórninni veitist heimild, til að lána Landsbankanum skírteinin, eigi síður en Íslandsbanka.

Annars skil jeg ekki, hvers vegna að eins á að gefa út 100 króna skírteini. Það er engu líkara, en að alt í einu sjeum vjer Íslendingar orðnir þeir „grosserar“, að vjer höfum ekki annað í veltunni en 100 kr. seðla, þó að hitt sje oss reyndar tamara, að eiga við 5 eða 10 kr. seðlana. og enda við 25-eyringinn. —

Að öðru leyti skal jeg og enn taka það fram, sem jeg hefi áður ymprað á hjer í neðri deild nýskeð, og enn ítarlegar vakið þó máls á, upp aftur og aftur, á flokksfundum, að mjer finst þingið skilja mjög leiðinlega við, eins og horfurnar nú eru í heiminum, — finst það að vísu alveg óverjandi, að það skilji svo við, sem það gjörir. —

Skal jeg því enn nota tækifærið, og skírskota sem rækilegast til fyrgreindrar ræðu minnar í neðri deild, og minna á það, að lögin um óinnleysanlegleik seðla Íslandsbanka gilda ekki nema til 15. okt. þ. á., eða þá þar um — man nú ekki glöggar daginn í svipinn —, og verða menn því, að gjöra sjer ljóst, hvernig fara myndi, ef lögin fjellu þá úr gildi, áður en ófriðarhættan er horfin, ef ekki væri þá auðið að framlengja þau með bráðabirgðarlögum, af því að símasambandið við Danmörku væri slitið, svo að ekki næðist til konungsvaldsins. —

Fyrst og fremst yrði landssjóður þá að skila Íslandsbanka gullforða hans aftur, og hvaðan fæst þá fje til þess, hafi honum áður verið varið til vörukaupa frá útlöndum?

Í öðru lagi myndu menn þá og streyma að bönkunum, sem og æ að sparisjóðunum, ef útlitið væri þá enn ískyggilegt — sem alóyggjandi má telja, þar sem stórveldi eiga hlut að máli, er hvert um sig mun halda út í lengstu lög — og taka út , sparisjóðsinneignir sínar og stofna öllu þannig í mesta vanda. —

Jeg vona því, að ljóst sje, hve afarfyrirhyggjulítið það er, að hafa eigi framlengt lögin frá 1. ág, þ. á., nú þegar, eða ef dragast væri látið, að gjöra það þá nú þegar, með bráðabirgðalögum, að þinginn loknu.

Þá hefi jeg og bent á vandræðin, sem af því hljóta að stafa, er flutningar til landsins, og frá því, minka, ef eigi alstöðvast, vegna ófriðarins, og tekjulindir landssjóðsins þverra, en handbæru fje landsins, sem nú er, varið áður til vörukanpa.

Jeg hefi bent á, að þingið þyrfti að gjöra það, sem í þess valdi stæði, til að fyrirbyggja að landsstjórnin kæmist í vandræði, er fram á veturinn líður, að því er greiðslu embættislauna snertir, sem og fl.

En við þessu hefir verið skelt skolleyrunum, og alt er látið reka á reiðanum, nema þingsályktunin, sem hjer liggur fyrir, bæti þá eitthvað úr því. —

Óskandi, að svo fari eigi, að vjer þurfum áður langt um líður, að súpa seyðið af þessu fyrirhyggjuleysi.

Hinu, sem jeg vjek og að, þ. e. að óhjákvæmilegt virtist, að liðsint væri almenningi, með lögum um „moratorium“ — þ. e. skuldagreiðslufrestur alment veittur yfir einhvern ákveðinn tíma (segjum: 6–8 mánuði, eða þá þar um), hefir og eigi heldur verið sint, þó að fyrirsjáanlegt sje, að stórkostleg vaxtahækkun, vegna ófriðarins, sem og verðhækkun allra nauðsynja, og atvinnuskortur, hljóti þó vafalaust að setja fjölda manna fjárhagslega alveg á höfuðið. —

En verst af öllu, og sárgrætilegast er það þó, að landsstjórnin skuli vera látin alein til úrræða, ef Danmörk yrði hernumin, þ. e, ef hlutleysi Dana verðurvirt að vettugi, eins og t. d. hlutleysisyfirlýsing Belga. —

Jeg hefi talað um þetta hvað eftir annað á flokksfundum, — bent á, að vjer þyrftum að vera við því búnir, að svo gæti farið, og ættum því og að sjá oss farborða í tíma.

En orðum mínum hefir enginn gaumur verið gefinn, og jeg hef engu fengið áorkað.

Menn hafa verið hræddir um það, að Danir kynnu að styggjast, ef gjört væri ráð fyrir því, að Danmörk yrði hernumin, og nefnd væri kosin, til að gæta hagsmuna og sjálfstæðis landsins, ef svo skyldi til takast, — hafa haldið það geta spilt fyrir málum vorum, að öðru leyti, og svo er þá alt látið ráðast.

Jeg hefi bent á þetta enn og aftur, og nú þá í síðasta skiftið, og á síðustu stundinni, — viljað á þann háttinn enn betur þvo mínar hendur.

En nú verður þá — úr því, sem komið er —, að treysta þá ráðherranum,— treysta því, að hann bregði þá við sem skjótast, ef illa fer, þótt skemmtilegra hefði það óneitanlega verið, bæði fyrir ráðherrann, og þjóðina, ef gengið hefði verið, af þingsins hálfu, betur frá öllu en nú er gjört. —