06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

3. mál, undanþága vegna siglingalaganna

Ráðherra (H. H.):

Eg býst við að till. háttv. flutningam. um nefnd verði samþykt, og vil eg því benda á það, að æskilegt væri að nefndin tæki þá um leið til athugunar annað atriði, sem stendur í sambandi við þetta.

Eins og menn muna var landsstjórninni falið að ákveða hversu mikið atkvæðamagn landssjóður skyldi hafa í eimskipafélaginu fyrir sitt tillag, sem eru 400.000 kr., og það var látið í ljós, að það skyldi ekki verða fult, hlutfallslega eftir hlutaeign, til þess að landssjóðurinn eða landstjórnin yrði ekki ofjarl í félaginu. Þegar lög félagsins vóru samþykt var ákveðið, að landssjóður eða fulltrúi hans skyldi hafa fjórðung atkvæðamagns að tiltölu við hlutafé, er það væri 400.000 krónur og að Vestur-Íslendingar gæti látið einn fulltrúa fara með atkvæði þeirra allra eftir fullri upphæð, þótt atkvæðamagn annara væri takmarkað. Varð þá dálítill ágreiningur um það, hvort fulltrúi þeirra Vestur-Íslendinga skyldi hafa meira atkvæðamagn en landssjóður, þótt þeir ætti minna fé í fyrirtækinu en hann, en félagslögin vóru samþykt eins og fulltrúi Vestur-Íslendinga óskaði í þessu efni. En þegar svo samningar vóru gerðir milli landstjórnar og félagsstjórnar um strandferðirnar, þá var það áskilið, að svo framarlega sem alþingi krefðist þess, að félagslögum væri breytt í þá átt, að enginn fulltrúi mætti fara með meira atkvæðamagn á fundi en fulltrúi landssjóðs, þá skyldi félagsstjórnin gera sitt til að þeirri breytingu yrði framgengt á næsta aðalfundi, og lofaði fulltrúi Vestur-Íslendinga því, að hann skyldi gera sitt til að þeir sætti sig við það og samþykti breytinguna.

Þetta atriði gæti nú væntanleg nefnd tekið til íhugunar og gert tillögur um það, og mun eg ef óskað er láta henni í té þær frekari upplýsingar eða skýringar, sem eg get, hér að lútandi.