05.08.1914
Efri deild: 32. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Framsögum. (Sigurður Stefánsson) :

Jeg get í rauninni skrifað undir alt, sem tekið hefir verið fram af fyrri ræðumönnum. Að jeg lít nú öðruvísi á málið en þegar það kom fyrst fram, kemur af þeim ástæðum, sem hv. þingm. Barð. (H. K.) og háttv. 5. kgk. (B. Þ.) hafa tekið fram. Jeg flutti málið hjer inn á þingið, af því að jeg áleit, að þessi kennarastóll ætti að komast á, en þrátt fyrir það, var það ekki álit mitt, að hann þyldi enga bið. Jeg skal játa það, að jeg hugsaði ekki út í það, þegar jeg flutti málið inn á þingið, hvort ekki væri rjettara að byrja á þessu í Mentaskólanum, en jeg sannfærist ávalt betur og betur um, að það er rjett að athuga það mál sem best, því að fyrir mjer vakir það, að þessi kennarastóll geti orðið að tilætluðum notum.

Jeg mun greiða atkvæði með hinni rökstuddu dagskrá, af því að jeg játa, að kringumstæðurnar eru nú breyttar frá því, sem þær voru þegar málið var hjer áður fyrir deildinni. Þingið hefir nú gjört ráðstafanir til þess að hefta lögmætar greiðslur úr landssjóði, og það er óviðurkvæmilegt að þingið á sama tíma stofni ný embætti, sem hafa útgjöld í för með sjer fyrir landssjóðinn.