14.07.1914
Neðri deild: 11. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

4. mál, mæling og skrásetning lóða

Framsögum. (Einar Arnórsson):

Eg get tekið undir með háttv. þm. Dal. (B. J.) um það, að málefni Reykvíkinga fá hér greiðan framgang, og það sannar það, sem hann hafði áður sagt um það efni. En það kemur nú raunar ekki þessu máli við.

Um hitt atriðið, sem hann mintist á, er það að segja, að eg skil vel, hver fiskur liggur undir steini hjá honum. Hann er góður íslenzkumaður og honum hefir ekki þótt þetta gott mál. Má vera að svo sé, en þó hygg eg að það finnist í norskum lögum nokkuð snemma. Eg býst við því, að háttv. þm. Dal. (B. J.) hefði heldur kosið að þarna hefði staðið orðatiltækið að sækja merkjadóm», og er það fjarri mér, að hafa nokkuð á móti því. Eg er einmitt þakklátur fyrir slíkar bendingar, en samt held eg nú fyrir mitt leyti, að hitt hefði mátt standa og sé gott og gamalt norrænt mál.