06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

5. mál, bæjarstjórn í Reykjavík

Flutningsm. (Sveinn Björnsson):

Þetta frumvarp á að því leyti sammerkt við hið næsta á undan, að það er einnig komið frá bæjarstjórninni. Það hefir verið rætt þar við 2 umræður og samþ., og okkur, þm. Reykvíkinga, síðan falið að bera það fram á þingi.

Það gæti verið ástæða til þess fyrir bæjarfulltrúa að blygðast sín við að koma fram með slíkt frumv., því að efni þess er ekkert annað en að þvinga bæjarstjórnina til þess að gera það, sem hún sjálf hefir talið eðlilegast. Breytingin, sem hér er farið fram á, er einungis sú, við 6. gr., að bæjarstjórninni er gert að skyldu að telja á fjárhagsáætlun sem sérstakan tekjulið tekjuafgang þann, er orðið hefir á reikningi bæjarins næsta ár áður, ef hann er nokkur, en aftur sem sérstakan gjaldlið tekjuhalla síðasta árs, nema hann stafi af kostnaði við verk, sem ætlast er til að greiddur verði með lánsfé.

Ástæðan til þessa er sú, að nú um nokkur undanfarin ár hefir orðið tekjuhalli á. fjárhagsáætlun bæjarins. Mér liggur við að segja, að sumir bæjarfulltrúarnir taki ofmikið tillit til kjósendanna. Því er það, að þegar tekjuhalli er, þá er ekki hikað við að taka lán til þess að jafna hallann, í stað þess að ná upp mismuninum með útsvörum, og hlýtur þetta að leiða til fjárhagslegrar glötunar. Til þess að útiloka þetta, kom fjárhagsnefndin fram með þessa tillögu, sem samþykt var í vor af bæjarstjórninni í einu hljóði. Eg vona því, að háttv. deild samþykki frumv. Frumv. er svo óbrotið, að eg býst ekki við að nefnd þurfi að skipa í það.