06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

10. mál, afnám fátækratíundar

Framsögum. meiri hl. (Jón Jónsson):

Eg þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta mál. Háttv. deildarmenn hafa nefndarálitið fyrir sér, og þar eru greindar ástæður þær, sem meiri hlutinn ber fram sínu máli til styrktar. Eins og menn sjá, hefir nefndin klofnað, og leggur meiri hlutinn til, að málinu , verði frestað og það afgreitt nú með rökstuddri dagskrá. Minni hlutinn leggur aftur á móti til að það verði samþykt eins og það liggur fyrir. Vér meiri hluta mennirnir teljum það engan veginn stóra breytingu, þó að þetta frumv. verði samþykt, en vér álítum það ekki rétta stefnu, að þingið stuðli að því, að fastar tekjur sveitasjóðanna verði skertar. En þetta frumvarp fer í þá átt, þar sem ekki er séð fyrir neinum föstum tekjum í staðinn.

Aðalástæða minni hlutans er sú, að þetta sé ranglátt gjald. Það má reyndar til sanns vegar færast, en þó get eg ekki skilið, að það geti talist stórkostlega ranglátt þegar litið er til þess, að upphæðin, sem hver maður á að borga, er ekki stór. Það má vera fátækur maður, sem ekki rís undir því gjaldi. Þess vegna er það, að þó að meiri hl. kannist við, að það komi ekki sem réttlátlegast niður, þá vill hann ekki að þessu eina fasta gjaldi sveitarsjóðanna verði kipt í burtu, að minsta kosti ekki fyrr en þeim verður séð fyrir öðru föstu gjaldi í staðinn.

Hin ástæða minni hlutans, að svo mikil fyrirhöfn sé að reikna út tíundina, virðist mér næsta veigalítil. Eg get ekki betur séð, en að það sé fljótunnið verk. Manni gæti dottið í hug, að þeir væri ekki miklir reikningsmenn Mýramenn, að minsta kosti lítur út fyrir, að þingmaður þeirra (J. Eyj.) hafi einhverntíma komist í hann krappan, að reikna út þessa tíund. Eg get ekki talið, að það sé meira en tveggja tíma verk fyrir hreppsnefndina í hverjum hreppi.

Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um málið. Vil eg leyfa mér að mæla með því, að tillaga vor meiri hlutans verði tekin til greina af háttv. deildarmönnum, og að frv. verði afgreitt með rökstuddri dagskrá.