06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

10. mál, afnám fátækratíundar

Einar Arnórsson :

Eg kann ekki alls kostar við, að háttv. þm. Mýr. (J. Eyj.) haldi einn uppi vörnum fyrir frv. sínu, því að eg hygg, að hann hafi réttara mál að flytja en hinir, sem á móti mæla. Eg býst við, að bændur segi nú, sem stundum fyrr, að lítið mark sé á því takandi, sem Reykvíkingar segja um sveitamálefni; en það ætla eg ekki að setja fyrir mig.

Við 1. umr. var það tekið fram, að fátækratíundin væri merkileg, helzt vegna þess, hve gömul hún væri. Aðalmótbáran var sú, að fátækratíundin væri sá forngripur, að sæmd væri að henni í lögum. Eg er nú að mörgu leyti mikill forngripavinur, en þó ekki svo að eg vilji láta þá sitja í fyrirrúmi fyrir nokkru því, sem rétt er og gott. Eg dýrka ekki forngripina eins og pápískir menn dýrlinga sína, myndir og bein, er þeir hneigðu sig fyrir og kystu.

Tíundin var sjálfsagt gott og réttmætt skattafyrirkomulag á sínum tíma, eftir því sem þá var um að gera. En þá var líka alt annað snið á henni en nú er. Hún var leidd í lög 1096 og var þá í 4 pörtum, biskupstíund, preststíund, kirkjutíund og fátækratíund. Um siðaskiftin hvarf biskupstíundin úr sögunni að mestu leyti og varð að konungstíund, sem aftekin var 1877. Prests- og kirkjutíund er nú einnig afnumin. Fátækratíundin stendur ein eftir eins og klettur úr hafinu, og er því sannkallaður forngripur. Við það, að hinar tíundirnar hafa fallið burtu, hefir létt á hinum auðugri mönnum. Þeir, sem eru í skiftitíund, greiða að eins einn þriðja til fátækra — hafa losnað við tvo þriðju en þeir, sem eru í öreigatíund, gjalda alla tíundina óskerta til fátækra. (Öreigarnir verða því verr úti. Eg veit ekki, hvernig þetta hefir orðið í framkvæmdinni, en eftir lagastafnum (1.12. júlí 1878, 12. gr.) er auðsætt, að hér er skapað misrétti á milli manna og þyngra gjald að tiltölu lagt á fátæka en ríka. Fátækratíundin verður því ekki talin réttlátt gjald. Og þegar því er nú slegið föstu, að hún er ekki réttlátt gjald, þá verður einhver nýtileg ástæða að vera til þess, að henni skuli haldið. — Ein aðalmótbára háttv. frams.m. meiri hl. (J. J.) var sú, að hæpið væri að taka fátækratíundina með sveitaútsvörum, vegna þess að þau væri svo óvinsæl. Eg játa, að sveitarútsvörin eru óvinsæl. En þegar athugað er betur, hve mikið fátækratíundin gefur í aðra hönd, þá er þessi mótbára veigalítil og raunar alveg einakis virði.

Þegar talað er um að afnema eitthvert gjald, er það venja manna að byrja á því að rannsaka, hverju er slept við það. Mér virðist að háttv. þm. Mýr. (J. Eyj.) hefði átt að kynna sér það, og ef hann hefir kynt sér það, þá hefði hann átt að segja frá niðurstöðu sinni í því efni. Eg hefi kynt mér þetta mál nokkuð. Vér höfum hér skýrslu um tekjur og gjöld sveitasjóðanna í Landshagsskýrslunum árin 1909 til 1910. Samkvæmt þeim hefir fátækratíund á öllu landinu numið 24,705 kr. árið 1909–1910. Ef þessari upphæð er jafnað niður á alla hreppa á landinu, þá verða það liðugar 100 kr., sem koma á hvern hrepp að meðaltali. Eg man ekki hreppatöluna með vissu, en hygg að hún hafi þá verið eitthvað á þriðja hundrað. Þegar gengið er í gegn um skýrsluna um þessa fátækratíund, kemur það í ljós, að í ca. 80 hreppum nær hún ekki 100 kr., í ca 100 hreppum er hún 100–200 kr., í ca. 20 hreppum 200–300 kr., og í einum 4 hreppum kemst hún á fjórða hundraðið.

Þegar maður ber fátækratíundina saman við sakaútsvörin, sér maður fljótt, að hennar gætir mjög lítið. Ef fátækratíundin er talin saman annars vegar og aukaútsvörin hins vegar, þá verður hlutfallið hér um bil 1 á móti 13. Með öðrum orðum, ef fátækratíundarupphæðin er margfölduð með 13, fær maður aukaútsvarsupphæðina. Aukaútsvörin í öllu landinu vóru sem sé 322828 kr. 1909–1910. En ef miðað er við allar tekjur sveitasjóðanna, verður hlutfallið 1 á móti 261/3. Allar tekjur sveitasjóðanna vóru á þessu tímabili 649,661 króna.

Eg þykist nú hafa sýnt með þessu, að fátækratíundarinnar gæti litið á fjárhagsreikningum hvers hrepps eða kaupstaðar. Þó að jafna ætti niður rúmum 100 kr. að meðaltali í hverjum hreppi, get eg ekki skilið, að það yrði til að skapa neina nýja eða meiri óánægju með aukaútsvörin.

Eg hefi nú bent á það tvent, 1; að fátækratíundin sé ranglátt gjald, sem kemur þyngra niður á fátæklingum heldur en efnamönnum, og 2) að hún nemi svo lítilli upphæð, að hennar gæti ekki í fjárhagareikningum hreppanna. Auk þess hefir háttv. þm. Mýr. (J. Eyj.) talað um aukna vinnu víð útreikning tíundarinnar. Það hefir og nokkuð til síns máls, en er þó ekkert aðalatriði, og kæmi alls ekki til greina, ef gjaldið væri að öðru leyti heppilegt og réttlátt.

Samkvæmt því, sem eg nú hefi sagt, sé eg ekki neina ástæðu til að halda í fátækratíundina, þó að hún aldrei nema sé veglegur forngripur.