09.07.1914
Neðri deild: 7. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

14. mál, vörutollur

Magnús Kristjánsson:

Eg býst ekki við því, að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hafi með þessum orðum sínum ætlað að leggja hindrun fyrir að þetta frumv. fái fram að ganga, heldur hafi hann að eins viljað ná sér niðri á háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) vegna almennra athugasemda, er hann gerði í gær við frumv. um bjargráðasjóð. Báðir hafa þeir talsvert til síns máls. Það getur verið afarilt að vera alt af að breyta nýjum lögum, en það getur líka staðið svo á, að það sé alveg bráðnauðsynlegt. Og hér stendur einmitt svo sérstaklega á. Það getur orðið landinu til tjóna, ef þetta frumv. verður ekki samþykt. Það stendur svo á, að á síðari árum hafa landsmenn aukið mjög síldarútveg sinn, vegna þess, að útlit hefir verið fyrir gott verðlag á þeirri vöru. En á síðasta ári hafa þessar vörur brugðist nokkuð — varan hefir ekki verið jafngóð og áður og framleiðslan í útlöndum jafnframt verið meiri. Varan hefir því fallið í verði. Ennfremur tóku margir þá stefnu að draga að selja sem lengst, því að áður hafði það gefist vel. En nú varð það úr, að verðið féll.

Eg held eg megi segja, að nú sé í útlöndum óseldar um 5–10 þús. tn. af síld. Nái nú þessi breyting, sem hér er farið fram á, samþykki þingsins, þá verður varan að líkindum endursend og menn gæti keypt hana hér fyrir um 7 kr. tunnuna. Og það er alveg rétt hjá háttv. þingm. S.-Þing., að landssjóði getur aldrei tapast fé á þessu, því að verði breytingin ekki samþykt, þá verður varan ekki endursend. Verði hún aftur á móti samþykt, þá hlýtur hún að verða landasjóði til tekjuauka, því að hann fær þá aftur á móti útflutningsgjald af vörunni, þegar hún hefir gengið gegnum bræðsluverksmiðjuna.

Eg held að það sé ekki of hátt áætlað, að hér sé um 50 þús. kr. verðmæti að ræða, sem að líkindum mætti bjarga, ef þetta frumv. nær fram að ganga.

Mér virðist málið svo ljóst, að eg álít nefndarskipun óþarfa. Eg skal geta þess í þessu sambandi, að mér virðist alt of mikið hafa verið gert að því á þessu þingi, að setja mál, hversu smávægileg sem eru, í nefndir. Og eg held að hætt sé við, ef þeirri stefnu verður haldið áfram, að þingið ljúki ekki störfum sínum á þeim tíma sem til er ætlast.