09.07.1914
Neðri deild: 7. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

14. mál, vörutollur

Guðmundur Eggerz:

Eg álít sjálfsagt, að þetta frumv. verði samþykt. En eg er því meðmæltur, að nefnd verði skipuð í það, vegna þess að eg þarf að koma fram með dálitla breyt.till. við frumvarpið. Eina og háttv. deild er kunnugt, þá kom eg fram í fyrra með tillögu um það, að menn væri undanþegnir vörutollsgjaldi af bátum, er fluttir væri hingað frá útlöndum, meðfram vegna þess að eina og nú stendur á eru menn neyddir til þess að kaupa bátana frá útlöndum.

Þar sem haldið er fram, að gjaldið af bátunum leiði til þess, að bátasmíðin verði innlend, þá er þar til að segja, að til þessa eru engar líkur þegar þess er gætt, að »fragt« fyrir vélarbát frá útlöndum nemur kr. 700.00, og hefir þetta þó til þessa ekki orðið til þess að bátarnir hafi verið smíðaðir hér á landi.

Annað mál er það, að það þyrfti að taka til athugunar, hvort ekki mætti gera eitthvað í þá átt, að innleiða innienda bátasmið. — En vörutollurinn er ekki vegurinn, það er fjarstæða. Það er ósanngirni, að láta sjómenn bæði greiða háan toll af bátum og vélum.

Í sambandi við þetta vildi eg skjóta því til væntanlegrar nefndar, hvort ekki mundi heppilegra að færa breytingarnar inn í texta upprunalegu laganna, en að hafa þær sem sérstök lög. Eg hef orðið var við það, að þetta fyrirkomulag hefir komið mörgum kaupmönnum og öðrum, er toll eiga að greiða, illa. Svo var það t. d. í fyrra, þegar breytingin á vörutollslögunum var samþykt. Þessu vildi eg skjóta til væntanlegrar nefndar.