11.07.1914
Neðri deild: 9. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

14. mál, vörutollur

Magnús Kristjánsson:

Eg álít viðaukatillögu háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) óþarfa. Eg veit ekki betur en að skip sé undanskilin vörutolli. En að undanskilja báta get eg ekki fallist á. Þetta atriði var til athugunar hér í deildinni á síðasta þingi og vóru þá leidd rök að því, að það væri amlóðaskapur að flytja báta frá útlöndum, þar sem kostur væri að smíða þá hér. Reynslan hefir sýnt það, að útlendir bátar hafa ekki átt sem bezt við hér, en innlendir bátar reynst betur.

Jafnframt því að mótmæla þessari tillögu, vil eg taka það fram, að það var ekki tilgangurinn með þessu frumv. að gefa tilefni til þess, að farið væri að breyta vörutollslögunum í öðrum atriðum, með því við lítum svo á, að eins og gengið var frá þeim á síðasta þingi, sé þau nú komin í það horf, sem sem vel megi una við í bráð.

Eg skal ekki fjölyrða um málið, ástæðurnar eru alveg óbreyttar frá því í fyrra.