11.07.1914
Neðri deild: 9. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

14. mál, vörutollur

Bjarni Jónsson:

Eg get tekið undir orð háttv. þm. Ak. (M. Kr.). Við áttum báðir sæti í nefndinni, sem um þetta mál fjallaði á síðasta þingi, og hefir hann hermt rétt ástæður hennar. Hún flutti þau rök fram fyrir sínu máli, sem óþarft er að endurtaka. Annars er það líka hálfleiðinlegt að hafa umræður um slíkt atriði sem þetta í tvö þing í röð. Þær ástæður, sem háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) hefir fært fram fyrir viðaukatillögu sinni, eru mjög veikar. Hvernig getur hann sagt, að bátasmíðin geti ekki orðið innlend, þar sem tollurinn hefir að eins staðið frá því um síðustu áramót? Það getur vel verið, að Austfirðingar hafi ekki kynt sér lögin eða gert samning um bátakaup áður en lögin urðu til. Nú er það víst, að ágætir bátasmiðir eru hér í Reykjavík, Bjarni Þorkelsson og fleiri. Hér mundu Austfirðingar geta fengið bæði betri og heppilegri báta en frá útlöndum. Við það mundi þeim sparast þessi 700 kr. flutningsgjöld, því að þeir gæti sjálfir siglt bátunum austur með litlum kostnaði. Hér er alls ekki um neinn verndartoll að ræða. Bátasmiðir verða að greiða vörutoll af efniviðnum í bátana, og því eru það verðlaun til þeirra, sem flytja báta frá útlöndum, að sleppa þeim við vörutollinn. Sams konar gilti um pappír, áður en það ákvæði var lagað á síðasta þingi. Samkvæmt vörutollslögunum, eins og þau vóru fyrst, var ekki vörutollur af prentuðu máli, þótt hann væri á óprentuðum pappír. Með þessu lagi varð það ódýrara að láta prenta bækur utanlands og flytja hingað til sölu, heldur en að prenta bækur hér. Alveg sama gildir um bátana. Austfirðingar ætti að geta sjálfir smíðað sína báta eða sótt hingað til Reykjavíkur. Það er víst, að Íslendingar hafa jafnan verið ágætir bátasmiðir. Það er eðlilegt, að vér þekkjum betur til en útlendir smiðir, hvað bezt á við í sjó hér. Íslenzkir bátar hafa því reynst traustari en útlendir. Og þar sem útlent bátalag hefir verið tekið upp, t. d. á Breiðafirði, þá, hefir því verið breytt, eftir því sem hér hefir þótt við eiga.