27.07.1914
Neðri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

47. mál, umboðsstjórn Íslands

Bjarni Jónsson:

Það er að eins örlítil athugasemd. Eg segi alveg eina og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), að eg vil ekki fara í kappræður út af þessu máli, og það var heldur ekki eg, sem fór um daginn í kappræður um mál það, sem hann mintist á. Eg var þar að eins að bera hönd fyrir höfuð mér, eina og hverjum heiðarlegum manni er skylt að gera.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) var að finna að þessum samanburði, sem eg kom með um embættismenn með eftirlaunarétti og eftirlaunalausa embættismenn. Hann vildi gera svo mikið úr konungsveitingunni, en eg legg ekki mikið upp úr því, hvort starfsmaðurinn er skipaður af konungi eða hefir fengið veitingu fyrir starfi sínu á annan hátt. Allir starfsmenn hina opinbera ætti að hafa sama rétt, og þingið ætti fyrir löngu að vera komið inn á þá braut, að láta þá annaðhvort alla hafa eftir. laun eða engan. En fyrst svo er, að margir embættismenn landsins eru eftirlaunalausir, þá getur það ekki heitið að taka einn mann út úr, þótt eftirlaunaréttur sé tekinn af ráðherranum, heldur er honum þá skipað í þann flokk, sem eg nefndi, þar sem þeir eru t. d. ráðunautarnir og margir aðrir starfsmenn hins opinbera.

Það er auðvitað alveg rétt, sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók fram gagnvart mér, að það er ekki fullkomlega sannað fyrirfram, að þingið hefði alt af rétt fyrir sér, þegar það greindi á við ráðherrann. En hver segir við guð : Hvað gerirðu? Hver getur tekið ráðin af þinginu? Vér verðum að ganga út frá því, að alþingi hafi jafnan rétt fyrir sér. Það er ómögulegt að skjóta neinu máli lengra. Þingið er æðsti dómstóll í hverju landi; það er jafnvel yfir konungum og keisurum og hverjum sem er. Þing hafa meira að segja leyft sér að láta hálshöggva konunga.

Hann spurði, hvort það myndi koma réttlátlega niður, að þingið ákvæði í hvert sinn, hverjir ætti að fá eftirlaun. Vitanlega kæmi það rétt niður, því að þingið hefir alt af rétt fyrir sér. (Hlátur). Svo standa þingmenn hér og hlæja að þessu, rétt eins og þeir væri hingað komnir til þessa að hafa í frammi órétt.

Það var ekki annað en þessi athugasemd, sem eg ætlaði að gera. Það er ekki ásetningur minn, að gera kappsmál úr þessu. Eg hefi borið fram frumv. um afnám ráðherraeftirlauna á þinginu 1909 ásamt þáverandi 1. þm. Rvk., dr. Jóni Þorkelssyni, en við gátum ekki komið því fram vegna þess að forseti úrskurðaði, að það væri brot á stjórnarakránni. Annars hefði það þá gengið fram orðalaust. Nú, þegar gera má ráð fyrir að stjórnarskráin verði ekki í veginum, ættum vér að taka skrefið hreint. Hitt er ómögulegt að forðast, að þing, sem haldin verða í framtíðinni hér á landi, veiti mönnum styrk eða gjöf eða skaðabætur. Framtíðarinnar þing verða að ráða sér sjálf í því efni, og vér hér höfum enga skyldu til að leggja þeim lífsreglurnar.