04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Einar Arnórsson:

Eg vil leiðrétta það ranghermi háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), er hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi drepið fjáraukalögin. Þetta er alla ekki fyllilega rétt. Það kom til tals þegar við 1. umr., og það var maður úr Bændaflokknum, háttv. samþingismaður minn (S. S.), sem þá stakk upp á því, — þeim flokki, sem háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) telst til. Reyndar greiddi sá maður, háttv. samþingism. minn (S. S.) ekki atkvæði sitt með því — enda eigi heldur móti því — að fella frumv., en það var af því, að hann hafði verið í nefndinni. Fleiri vóru þeir úr Bændaflokknum, sem vóru móti aukafjárl., og auk þess var einn af vorum mönnum með þeim, og einn eða fleiri greiddu eigi atkvæði, svo að það er alls ekki rétt, að þetta hafi verið flokksmál, heldur greiddi hver atkvæði eins og honum sýndist, eins og t. d. háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.), og það tel eg líka rétt. Annars kalla eg það lítilfjörlegt atriði, hverjum þetta hefir verið að kenna.

Þá ætla eg að minnast á dagskrána, sem háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) kom fram með. Við 1. umr. þessa máls var því haldið fram, bæði af háttv. umboðsm. ráðherra (Kl. J.) og fleirum, að þetta frumv. færi í bága við 24. gr. stjórnarskrárinnar, og væri því ekki heimilt að taka það til meðferðar hér í deildinni. Ef það væri brot á 24. gr. stjórnarskrárinnar að greiða gjald af hendi samkvæmt heimildarlögum, ætti það að vera því meira brot á þessari grein, ef stjórnin greiddi fé úr landssjóði eftir einfaldri þingsályktunartillögu eða rökstuddri dagskrá. Nú hefir háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) komið hér með rökstudda dagskrá, sem ætlast er til að nægi til heimildar fyrir stjórnina til fjárgreiðslu i sama skyni og frumv. fer fram á.

(Eggert Pálsson: Það yrði þá veitt upp á væntanlegt samþykki næsta þings).

Eg heyri það, en þetta er undarleg hringferð í hugsuninni hjá háttv. þm. Ef í dagskránni liggur engin heimild, þá er hún óþörf, og ef stjórnin vill veita fé án fjárlagaheimildar, þá getur hún það jafnt, hvort sem til er marklaus dagskrá eða ekki, en ef nokkur heimild á að liggja í dagskrá, sem að eins er samþykt í annarri deildinni, þá er skrítið, ef engin heimild felst í reglulegum lögum um sama efni. Mér dettur nú ekki í hug, að stjórnin yrði dregin fyrir landsdóm fyrir það, þótt hún greiddi fé samkvæmt slíkri dagskrá, en allir sjá, hve hugsanrétt þetta er hjá háttv. þingm.