04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

84. mál, hornviti á Grímsey á Steingrímsfirði

Forseti (Ó. Br.):

Út af þriðja máli á dagskránni skal eg leyfa mér að taka það fram, að spurning getur verið um, hvort eigi þurfi að leita afbrigða frá þingsköpum til þess að það geti komist að.

Í 27. gr. þingskapanna er svo fyrir mælt, að lagafrumvörp, er önnurhvor deildin hefir felt, megi ekki bera upp aftur á sama þingi. Liggur nærri að líta svo á, að þetta ákvæði verði einnig að gilda um einstakar greinir feldra frumvarpa, sakir þess, að annars mætti algerlega fara í kringum það með því að bera upp sérstakt frumvarp um hverja einstaka grein.

Ennfremur er svo fyrirmælt í 30. gr. þingskapanna, að atriði, sem búið er að fella í deild, megi ekki bera upp aftur í sömu deild á sama þingi.

Nú er það vitanlegt, að frumvarp það, sem fyrir liggur, var einn liður í fjáraukalagafrumvarpi því, sem felt hefir verið hér í deildinni, jafnvel þó þetta atriði kæmi ekki sérstaklega undir atkvæði.

Samkvæmt þessum ákvæðum þingskapanna þykir því varlegra að leita afbrigða frá þeim.