03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

113. mál, kosningar til Alþingis

Björn Hallsson:

Eg bjóst ekki við, að miklar umræður yrði um þetta mál á þessu stigi þess. Eg hélt, að háttv. þingmenn mundu bíða með athugasemdir sínar þangað til væntanleg nefnd hefði lokið störfum sínum. En nú hefir sú orðið raunin á, að allheitar umræður hafa orðið um málið milli einstakra þingmanna. Inn í þær ætla eg ekki að blanda mér nú. Eg býst við, að nefnd verði skipuð í málið og mér gefist kostur á að koma fram með mínar athugasemdir síðar. Þó skal eg geta þess nú þegar, að eg hefði talið það heppilegra, að þessu frumvarpi hefði verið skift í tvö frumvörp.

Það er auðsætt, að verði frumvarp um breytingu á stjórnskipunarlögum landsins samþykt á þessu þingi, þá hlýtur sú breyting að hafa í för með sér nauðsynlega breytingu á gildandi kosningarlögum. Aftur á móti kemur breytingin á kjördæmaskipun landsins, sem stungið er upp á í þessu frumvarpi, stjórnarakrárbreytingunni ekki við. Þess vegna hefði eg, eins og eg tók fram, heldur kosið að frumvörpin hefði verið tvö í staðinn fyrir eitt. Eg álít varhugavert að fara að gera breyting á kjördæmaskipaninni að þjóðinni fornapurðri. Mér er fullkunnugt um, að einmitt þetta mál verður talsvert hita- og kappamál hjá þjóðinni, og því álít eg rétt að fara varlega í það og spyrja kjósendur fyrst um vilja þeirra.

Að svo mæltu álit eg óþarft að fjölyrða meir um málið við þessa umræðu, en skýt þessum athugasemdum til væntanlegrar nefndar.