03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

79. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Sigurður Sigurðsson:

Eg er nú svo undarlega innrættur, að eg hefði helzt kosið, að ekki hefði verið lögð nein fjáraukalög fyrir þetta aukaþing. Eg lít svo á. að meðan ekki er háð reglulegt fjárlagaþing á hverju ári, þá sé það hál braut, að flytja fjáraukalög á aukaþingum.

Síðan 1874 hafa verið haldin 4 auka. þing og þetta það 5., sem nú er að byrja, og að eins á einu þeirra hafa verið samþykt fjáraukalög, árið 1902, en hinum ekki. Og eg hefði kunnað bezt við það, að engin fjáraukalög hefði verið lögð fyrir þingið í þetta sinn, eða afgreidd frá því.

Því er sem sé svo farið, að sé fjáraukalög einu sinni komin inn í þingið, þá er þess skamt að bíða, að utan um þau hlaðist breytingatillögur um aukin fjárframlög til eins og annars.

Eg heyrði áðan lesið, að nú þegar væri lögð fram á lestrarsal beiðni frá einum opinberum starfsmanni um launahækkun, og þar munu fleiri á eftir fara. Eg geng út frá því sem öldungis vísu, að ef þingið fer að fást við fjármál á annað borð, þá muni rigna niður breytingatillögum við framvarpið, sem eingöngu miða að því að auka fjárgreiðslurnar.

Á þessu eina aukaþingi, sem afgreitt hefir fjáraukalög, þinginu 1902, var í frumvarpi stjórnarinnar gert ráð fyrir, að upphæð greiðslnanna yrði kr. 46.130;21, en svo fór, að þegar frumvarpið fór út úr þinginu, þá var upphæðin orðin kr. 80,411,77. Með öðrum orðum: hún hafði hækkað um tæpan helming. Aðalástæðan til þess, að það frumv. kom fram, var Lagarfljótsbrúin, sem þá lá á að fullgera, og var þar um 43 þúsund kr. fjáraukningu að ræða.

Nú get eg ekki séð í þetta sinn að neitt kalli að, er sé svo nauðsynlegt og sjálfsagt, að til þessarra ráða þurfi að grípa.

Hæstvirtur ráðherra (H. H.) sagði, að út af samningnum við Bergenska gufuskipafélagið væri það skylda að reisa þennan vita á Grímsey í Steingrímsfirði, sem ræðir um í frumvarpinu. Hann á að kosta 14.100 krónur. Það er auðvitað nokkur upphæð og vafasamt, hvort stjórnin þykist sjá sér fært að greiða hana án fjáraukalaga. En benda vil eg á að, að oft hefir það komið fyrir — þótt reyndar hafi ekki verið um svo stórar fjárhæðir að ræða, að stjórnin hefir gripið til þess ráða, að verja fé án heimildar í fjárlögum eða fjáraukalögum, og það til miklu ónauðsynlegri útgjalda en hér er um að ræða. Það er líka til annar vegur. Það ætti að mega heimila stjórninni þetta með þingsályktunartillögu. Eg skal ekkert fullyrða um það, hvort það er lögum samkvæmt eða formlegt, en líklegt þætti mér, að það mætti nægja.

Einn póstur er það í þessu frumvarpi, sem sérstaklega snertir mitt kjördæmi, Árnessýslu, og gæti eg hugsað, að einmitt þess vegna kynni sumum að þykja það eitthvað kyndugt, að eg skuli leggjast á móti frumvarpinu. Eg á hér við fjárveitinguna til undirbúnings og rannsóknar á járnbrautarstæðinu austur. En eg get upplýst það, að eg tala hér að vilja kjósenda minna. Þeim er þetta ekki það kappamál, að þeir kæri sig um að fá samþykt fjáraukalög þess vegna. Þeir þykjast vel geta beðið eitt ár, og þeir hafa samþykt svofelda tillögu þessu viðvíkjandi, sem eg hér með skal leyfa mér að lesa upp með leyfi hæstv. forseta:

»Fundurinn telur undirbúning járnbrautarmálsins nauðsynlegan og aðkallandi, en vill þó heldur fresta þeim undirbúningi, heldur en að fjáraukalög gangi í gegnum þingið«.

Eg þykist því vera í mínum fulla rétti gagnvart þessari fjárveitingu, þótt eg sé á móti þessu frumvarpi í heild sinni. En eg endurtek það, að aðalástæðan til þess, að eg er því andvígur, er sú, að eg óttast að fram muni koma við það breytingatillögur, er hækki upphæð þess, sem ekki er nema 34.800 kr. — hækki hana að minsta kosti tiltölulega engu minna en átti sér stað 1902, þegar hún óx alt að helmingi, og að í þeim hóp geti slæðst með ýmsar fjárgreiðslur, sem ekki eru nauðsynlegar. Og hina vegar virðist mér að þessar greiðslur, sem hér er um að ræða, muni þola að bíða í eitt ár, eins og eg þegar hefi tekið fram, og að Grímseyjarvitanum megi bjarga á annan hátt og einfaldari.

Mér finst árferði og kringumstæður manna nú ekki leyfa aukin gjöld fyrir landssjóð og auk þess ætti þingið að gera sér það að reglu, að auka ekki gjöld landsmanna umfram það, sem þörf er á.