25.07.1914
Neðri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

75. mál, sparisjóðir

Bjarni Jónsson:

Eg get verið stuttorður, því að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir tekið flest það fram, sem máli skiftir.

Það gladdi mig að heyra undirtektir háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) í því atriði, er hann talaði um seinast í ræðu sinni. Mér hefir skilist það á mönnum, sem til þekkja og vit hafa á, að sparisjóðir út um land myndi neyðast til að hætta störfum sínum, ef það væri gert að skyldu, að tveir menn úr stjórninni væri viðstaddir hverja innborgun. Það er ekki svo skamt milli bæja til sveita, að tveir menn úr stjórninni sé alt af tagltækir á staðnum við hvert tækifæri. Og það mundi kosta viðskiftamenn sjóðsins mikið ómak, ef þeir gæti ekki notað þær ferðir, sem félli, til þess að gera skifti sín við sjóðina.

Það er rétt hjá háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) það sem hann sagði um sparisjóðina í kauptúnunum, en þetta gildir engu síður til sveita. Það er oft, að gjaldkerinn býr 3–4 bæjarleiðir frá hinum stjórnendunum, og það mundi ekki kosta alllitla fyrirhöfn, ef alt af þyrfti að sækja hann og viðskiftamaðurinn yrði að bíða á meðan. Auk þessa er ósamræmi milli fyrri og síðari hluta greinarinnar. Í fyrri hlutanum er það gert að skyldu, að 2 starfsmenn sé viðstaddir, en í síðara hlutanum er leyft að borga út, þótt ekki sé nema einn viðstaddur. Þar er gerð undantekning, sem hæglega getur orðið að aðalreglu. Satt að segja er greinin — hverja skoðun sem maður annars hefir á málinu — ómynd, og vildi eg, að hún yrði feld núna og annað nýtt og betra sett í stað hennar við 3. umræðu.

Mér er ekki um þessar grundvallarreglur, enda eiga þær ekki heima í lögum. Það nær engri átt að heimta því meiri tryggingu af féhirði, sem hann hefir meiri laun. Auðvitað getur verið að hann ætti þá hægra með að setja trygginguna, en aðalatriðið er, að hún sé einhver, og ætti hún þá jafnvel að vera heldur frekari, ef launin væri lítil eða engin, því að þeim mun meiri væri freistingin, ef fingralangur maður ætti í hlut. Nefndin hefir orðið sammála um að leggja það til, að þessi grein sé feld niður, enda var hún markleysa ein frá upphafi.

Ekki sé eg heldur að það sé nema til ills eins, að hafa ákvæði um það, að engin lán skuli fást endurnýjuð lengur en í 10 ár, því að þá verður bara breytt formi lántökunnar. Sama lánið verður látið heita annað lán. Auðvitað gerir þetta ekki mikinn skaða, ef menn hafa gaman af að vera að þessu, en óþarfi er það, og vel mætti slíkt vera komið undir ákvörðunum sjóðstjórnanna.

Eg er háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) þakklátur fyrir það, sem hann sagði um trygginguna og honum samdóma um það.

Þá skal eg minnast á sjálfskuldarábyrgðarlánin og víxillánin, sem talað er um í 13. gr. Stjórninni þykir víst ilt að missa það ákvæði úr frumv., en eg verð að geta þess, að mínum kjósendum er það beinlínis skilyrði til þess að geta haft sparisjóð, að þeir fái að halda áfram að ráða sér sjálfir í því efni, og að löggjöfin sé ekki að þessu leyti að taka fram fyrir hendur þeirra.

Eg verð að geta þess, að þótt sumir menn sé hræddir við að hafa »þessar miljónir« eftirlitslausar, þá eru þær alls ekki eftirlitslausar, eins og nú er, þó að stjórnin eða einhver einn maður hafi ekki eftirlitið á hendi. Eg veit ekki betur, en að menn sé alveg jafngreindir, ráðsettir og ráðvandir út um sveitir landsins, eins og hér, og þeim sé alveg eins vel trúandi til að gá að sér og sínum hag, þótt ekki sé háar tryggingarupphæðir. Hins vegar er langt frá því, að eg hafi á móti þessum eina eftirlitsmanni af því, að hér sé verið að stofna nýja stöðu. Það er auðvitað alveg sjálfsagt að gera það, ef þess þarf, og þá á líka að gera eitthvað svo að gagni komi. En þessi eini maður, sem frumv. gerir ráð fyrir, er ónógur og illa launaður.

Eg hefi reiknað það út, að ef hann ætti að geta skrúfað laun sín upp í 2700 kr., þá yrði hann að vera á ferðalagi 300 daga af árinu. Eg geri sem sé ekki ráð fyrir því, að hann steli. Hvernig menn ætla sér að fá góðan og glöggan mann til atarfans með þessum kjörum — það skil eg ekki. En það er til annar vegur til þess að fá einhverja opinbera tryggingu fyrir því, að lag sé á sparisjóðunum, og það er að hagnýta sér þá löggiltu endurskoðendur, sem nú eru að komast inn í lögin á þessu þingi. Þeir eru einmitt til þess og annars eins. Auðvitað ætti þá landssjóður ekki að borga þeim, heldur sparisjóðirnir, enda væri ekki rétt að þeir fengi endurskoðunina fyrir ekkert. Þeim væri þetta hagur samt.

Eg ætla að biðja háttv. þingmenn að halda ekki að eg sé að fara með spaug, þegar eg hermi það úr 9. gr., að kvittun féhirðis á ekki að vera gild, en þó má hann taka við peningum. Á hann að taka við þeim í sinn vasa, eða hvað? Það er eins og verið væri að gefa í skyn, hvernig þessir menn geti með hægu móti haft fé af mér eða öðrum fáráðlingum, sem kynni að trúa þeim, og liggur næst að skoða þetta sem fyndni hjá þeim, sem bjó frumvarpið til.

Enn mætti benda á það, að umsjónarmaður gæti falið öðrum manni að reka erindi sin, og aukið þannig laun sín, en farið hvergi sjálfur, og væri slíkt tæpast heppilegt.

Að endingu skal eg aðeins taka það fram, að eg er ekki að gera hv. nefnd neinar getsakir. — Hún hefir einmitt verndað dæmalaust vel sinn heiður við þessa umr.