22.07.1914
Neðri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

75. mál, sparisjóðir

Framsögum. minni hl. (Guðm. Hannesson):

Háttv. umboðsm. ráðherra (Kl. J.) sagði, að nú væri sem fyrri barist um það, hvort eftirlitamaður ætti að vera einn eða fleiri. Eg skil nú ekki þetta, því að einn á hann að vera, bæði eftir tillögum meiri hlutans og minni hlutans. Hvort sem hann er fastur starfsmaður landssjóðs eða tekinn úr Landsbankanum, þá er hann ekki nema einn, svo að gamla deilan kemur hér ekki til greina.

Þá fann háttv. umboðsm. ráðh. (Kl. J.) að því, hvað talið væri til eigna sparisjóðanna í nefndaráliti mínu. Já, eg er ólögfróður maður, svo að eg fór í smiðju þegar eg skrifaði þetta. Eg fór einmitt í stjórnartíðindin og fór nákvæmlega eftir skýrslum stjórnarráðsins þar um sparisjóði. Þar eru »eignir« þeirra taldar í 5 liðum, sem sé 1) fasteignaveðskuldarbréf, 2) Sjálfskuldarábyrgðarlán, 3) lán gegn annari tryggingu, 4) útistandandi vextir, 5) í sjóði.

Ef ekki má nú nota sömu nöfn og stjórnin hefir í opinberum skýrslum, og ekki samþykkja brt. af því að farið hefir verið eftir dæmi hennar, þá þykir mér fara að verða nokkuð vandlifað.

Það er eitt atriði, sem allir háttv. þm. sem talað hafa, og þá sérstaklega háttv. umboðsm. ráðh. (Kl. J.), hafa tekið fram, og það er, að fé sparisjóðanna eigi að vera óhult. Ef þeir hugga hugsunina til enda og meina eitthvað með þessu, þá hygg eg, að þeir hljóti að komast að sömu niðurstöðu og drepið er á í nefndaráliti minni hl., sem sé að greina sundur sparisjóði og banka. Þessir sparisjóðir, sem eru að vaxa upp í smábanka, geta ekki gefið allakostar fulla tryggingu. Að vísu hefir svo reynst hingað til, að ekki hefir orðið tjón að þessu, en vilji menn vera vissir, þá verða þeir að fara þessa leið, sem eg gat um. Hún er eina hugsanlega leiðin.

Það er sannfæring þeirra manna, er halda fram einum sérstökum embættismanni til eftirlitsins, að á þann hátt verði eftirlitið stórum betra en ella. Þó að engin trygging sé fyrir því, að sparisjóðirnir sé óhultir, þá verð eg að vera háttv. þm. Dal. (B. J.) samdóma um það, að þeir sé alls ekki eftirlitslausir.

Ef ekkert má gjöra úr kunnugleik sparisjóðsstjórna og ábyrgðarmanna, — fjármunalegri áhættu sjálfra þeirra og drengskapartilfinningu — ef það er einskis virði, að þeir eigi á hættu að glata mannorði sínu og komast ef til vill undir refsingu laganna — ef alt þetta er einskis nýtt, þá geri eg ekki mikið úr tölueftirliti umsjónarmannsins.