30.07.1914
Neðri deild: 24. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

75. mál, sparisjóðir

Framsögum. meiri hl. (Guðm. Hannesson):

Það hefir nú tekist svo undarlega til, að eg, sem við 2. umr. var framsögum. minni hlutans, er nú orðinn framsögum. meiri hlutans. Það stendur svo á því, að háttv. deild tókst svo óhönduglega með þetta frumv. við 2. umr. Meiri hluti deildarinnar virtist hallast að skoðun minni hluta nefndarinnar um það, að ekki væri ástæða til að setja á fót sérstakt embætti eða fastan starfsmann til þess að líta eftir sparisjóðum, en eigi að síður var ein aðalgreinin úr breyt.till. minni hlutans feld, svo að frumvarpið varð hvorki heilt né hálft og hrein meiningarleysa. Nefndarmenn vildu þó gera tilraun til þess að bjarga frumv. — að minsta kosti út úr þessari deild. Meiri hluti nefndarinnar og eg komum oss því saman um brtill. á þskj. 210 og verði þær samþyktar, er bætt úr því botnleysi, sem frumv. lenti í við 2. umr.

Þá hefir og orðið samkomulag um brtill. á þskj. 259, sem segja má um, að sé frekar frumvarpinu til skýringar, en breyting á því.

Ef litið er á það skipulag, sem nefndin gerir ráð fyrir að komist á, verði þessar brtill. samþyktar, þá er fyrst og fremst þess að geta, að samskonar bókfærsla — og hún hentugri en nú á sér stað, kemst á við alla sparisjóði í landinu. Öll skjöl verða sniðin eftir sömu fyrirmyndum, er hyggilegastar þykja. Til þess að koma þessari breytingu á, sem gert er ráð fyrir, verður bankavanur maður sendur eitt sinn til allra sparisjóða á landinu og á hann jafnframt að kynna sér hag þeirra. Á þennan hátt ætti að fást sæmileg þekking á því, hvort um verulegt ólag er að ræða eða ekki. Þess fer að verða full þörf, meðal annars vegna aðgerða þingsins, sem hefir nú í 2 ár gert sitt til þess að vekja tortrygni gegn sparisjóðunum, með umræðum um þetta mál á tveim þingum.

Í öðru lagi verða sjóðirnir tryggari að því leyti, að varasjóður er að mestu leyti handbært fé og auk þess 5% af innstæðufé stærri sjóðanna. Fæst þannig betri trygging en áður bæði fyrir því, að sjóðirnir geti borgað þeim, sem segja upp innlánum og sömuleiðis mætt óvæntum halla án þess að lenda í vanda.

Í þriðja lagi er komið á fót föstu eftirliti á ári hverju með nokkrum sparisjóðum, sérstaklega þeim stærstu.

Nefndin gerir ráð fyrir því, að á ári hverju láti stjórnarráðið hæfan mann líklega úr Landsbankanum — líta eftir nokkrum sjóðum, en ætlast ekki til að fastur starfsmaður sé ráðinn til þess. Hitt mundi sjálfsagt, að sami maður hefði eftirlitið með höndum ár eftir ár, meðan því yrði viðkomið. Á þennan hátt hefði allar sparisjóða stjórnir töluvert aðhald, því að þær vissi aldrei hve nær eftirlitsmaðurinn kæmi og athugaði alt ástand sjóðsins.

Það eru öll líkindi til að þess konar eftirlit kæmi að fullum notum og jafnframt yrði það óbrotnara og ódýrara en fastur eftirlitsmaður.

Nú hefir borist að fjöldi af nýjum breyt.till. bæði við frumvarpið sjálft og aðalbreyt.till. meiri hlutans. En nú er úr þessu orðin sú tillöguflækja, að ekki er allskostar vandalaust að villast ekki við atkvæðagreiðslu.

Mér dettur ekki í hug að fara að eltast við allar þessar brtill. Þær eru misjafnar og margar þeirra sízt að lasta. Eg skal þó drepa lítið eitt á brtill. á þskj. 226 frá háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) og háttv. þingm. Dal. (B. J.) 1. lið, að úr 4. gr. sé feld orðin »eða leyfi stjórnarráðsins« getur meiri hlutinn fallist á. 2. liður virðist þýðingarlaus, þar sem meiri hlutinn hefir komið með samskonar brtill. á þskj. 259. Nefndin leit svo á, að þó að frumv. greini á milli stjórnar og starfmanna, þá mætti stjórnendur við hina smærri sparisjóði hafa sjálfir með höndum bókara og gjaldkerastörf.

3. liður er tekinn upp í aðalbreyt.till. vora á þskj. 210.

4. liður er óþarfur vegna þess, að það, sem tillagan fer fram á, liggur í 11. gr., þar sem stjórnarráðinu er falið að setja reglur um gerðabókarhaldið.

Viðvíkjandi 5. lið þá skal eg geta þess, að eg skil það vel, að mörgum muni þykja það hart að festa 5% af innstæðufénu. En meiri hlutinn leit ekki svo á, að féð væri algerlega fest með þessu. Vér álítum að taka megi til þessa fjár, en aðeins væri skylt á ákveðnum tíma, t. d. um nýár, að fylla í skörðin, svo að ákveðin upphæð væri fyrir hendi. Oss er það ekki mikið kappsmál, hvort þessi upphæð verður færð niður í 3% en álítum það þó ekki til bóta. En meiri hl. getur alls ekki fallist á það, að nema þessa skyldu burtu með öllu.

Viðvíkjandi brt. á þskj. 244, er líkt að segja. Falli aðalbrt. meirihl. í þessu efni, þá getur hann fallist á þessa tillögu.

6. lið getur meiri hlutinn fallist á.

7. liður gerir enga verulega breytingu á frv. og því ekkert unnið við að samþykkja hann.

8., 9. og 10. lið felst meiri hl. á.

Þá er brt. frá umboðsmanni ráðherra (Kl. J.) á þskj. 247. Eg býst við því, að verði brt. nefndarinnar á þskj. 259 samþykt, þá sé þessi till. sjálffallin, því að hún fer alveg í sömu átt.

Eg held, að eg hafi þá talið upp helztu brt., þó að menn sé ef til vill litlu fróðari eftir.

Ef menn gæta allrar varkárni við atkvæðagreiðsluna, þá vænti eg þess, að vér getum komið þessu frv. í sæmilegum búningi út úr deild vorri, og það geti orðið til einhvers góðs.