29.07.1914
Neðri deild: 24. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

75. mál, sparisjóðir

Sveinn Björnson :

Eg sé það á háttv. þm. Dal. (B. J.), að hann ætlar að láta mig deyja áður en hann tekur til máls. Það er auðséð á honum, að honum býr eitthvað í brjósti — og skal eg þá ganga í dauðann fyrir hann.

Mér datt í hug áðan, að líta í þingmálafundargerðir frá Árnesingum, til þess að sjá, hvort þar væri áskoranir til þingmanna þeirra um að berjast eins og ljón fyrir sýslueftirlitsmönnum sparisjóða. Eg gat ekki fundið það, svo að það er líklega ekki af sérstökum kjördæmisástæðum, að þeir halda svo fast saman um það atriði, heldur er það eingöngu af sameiginlegum misskilningi sprottið.

Eg skal þá fyrst snúa mér að háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Eg hlustaði með athygli á ræðu hans, og heyrði, að hann talaði skörulega fyrir sýslueftirlitsmönnunum, en aftur á móti heyrði eg ekki, að hann greindi neinar ástæður, er sönnuðu ágæti þeirra. Eg leyfði mér þess vegna að grípa frami fyrir honum og inti hann eftir ástæðunum. Það stóð ekki á svarinu, og var það á þá leið, að reynslan mundi sýna þetta. Sú ástæða getur ef til vill talist góð og gild eftir svo sem 10 ár, en hann verður að fyrirgefa þó að eg sé tregur til að beygja mig fyrir henni á þessu augnabliki.

Þá kem eg að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.). Hann sagði það hafa verið af misskilningi, að eg fullyrti, að hann og hv. þm. Dal. (B. J.) hefði áður ekkert eftirlit viljað hafa með sparisjóðunum. Eg bygði þessi orð mín sérstaklega á ræðum háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) við 2. umr. þessa máls. Mér virtist þá koma fram hjá honum sú skoðun, að slíkt eftirlit væri yfrleitt ónauðsynlegt. En sé þetta misskilningur, þá nær það ekki lengra, enda skiftir það í rauninni engu máli. Aðalatriðið er það, að nú er hann eindregið á því, að eftirlitið þurfi að vera. Eg get því leitt hjá mér allar deilur um þetta atriði.

Sami háttv. þm. (E. A.) heldur því fram, að sama gildi um eftirlitið sem um hugtökin, að það verði því innihaldsminna, því víðtækara sem það sé. Það er stundum gott að vera stífur í rökfræðinni, en sá hængur er þó á því, að það getur oft leitt menn út í öfgar og vitleysu. Að minsta kosti fer svo fyrir háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hér. Mér virðist þetta rökfræðilega dæmi hans áþekt dæminu því arna, sem allir þekkja: Enginn köttur hefir níu rófur. Einn köttur hefir einni rófu fleira en enginn köttur. Einn köttur hefir því tíu rófur. Þetta hvorttveggja er af sama tagi. Eg tel það ekkert vafamál, að því fleiri sparisjóði, sem eftirlitsmaðurinn hefir til þess að líta eftir, því meiri æfingu fær hann í starfi sínu og því gleggra auga hefir hann fyrir misfellunum ef nokkrar eru. (Sigurður Sigurðsson: Ef hann hefir þá nokkurntíma verið starfinu vaxinn. Guðmundur Hannesson: Það getur breyzt. Einar Arnórsson : Það getur nú gengið nokkuð seint). Eg skil ekki í öðru, en að það verði eins hægt að fá einn hæfan mann af 85 þús. eins og fá einn mann meðal þeirra fáu þúsunda, sem í hverri sýslu búa.

Þá sagði háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) að það væri mikilsvert, að samræmi væri í milli allra sparisjóða í landinu. En eins og gert er ráð fyrir í brt. vorri, er ætlast til, að þetta samræmi komist á þegar í stað. En þá verður líka að sjá um að samræmið haldist. Því að eg lít svo á, að ekki sé minna um vert að halda samræminu, eftir að því hefir verið komið á, heldur en að koma því á í upphafi. Ef sinn eftirlitsmaðurinn verður við hvern sparisjóð, er mjög svo ólíklegt, að sparisjóðirnir haldist lengi í nokkru samræmi hver við annan, þó að þeir hefði verið það í byrjuninni, því að hver eftirlitsmaðurinn mundi auðvitað haga eftirlitinu á sinn sérstaka hátt.

Þá neitaði sami háttv. þm. (E. A.) því, að hann hefði gefið nokkurt tilefni til að vera skilinn á þann veg, að sýslueftirlitsmenn hans ætti eingöngu að verða nokkurskonar aukaendurskoðendur sparisjóðanna. Eg gat ekki skilið fyrri ræðu hans öðruvís. Út af þessu fer hann að skrifta, hvað hann eigi við með sýslu-eftirlitsmanninum. Og munurinn á honum og endurskoðandanum á þá að vera sá, að endurskoðandinn haldi sér stranglega við 18. gr., en eftirlitsmaðurinn athugi veðin auk þess. En mér skilst nú að 18. grein sé líka um veð. Hann heldur svo áfram og segir, að sá maður, sem heima á í sýslunni, sé miklu bærari að dæma um veðin heldur en landseftirlitsmaðurinn. Þessu vildi eg mæla á móti. Það er enginn vafi á því, eins og líka er tekið fram í nefndaráliti meiri hl., að eftir ytri merkjum lánanna er oft hægt að dæma, hvort þau eru trygg og góð. Annað er það, að ef eftirlitsmaðurinn væri einn, þá fengi hann svo mikla æfingu í að dæma um veð, að hann yrði miklu færari til slíkra dóma en sýslueftirlitsmaðurinn. Ennfremur eru meiri líkindi til, að hann yrði óvilhallari dómari í þessum sökum, því að eins og tekið hefir verið fram, mundi verða mjög erfitt að finna mann innan sýslunnar, sem gæti verið með öllu óvilhallur, annaðhvort fyrir það, að hann væri venzlaður sparisjóðsstjórninni á einhvern hátt, eða þá sjálfur viðriðinn sjóðinn. Þegar svo er ástatt, yrði maðurinn að vera hreinn engill, ef hann ætti að geta litið alveg óvilhöllum augum á sparisjóðinn og stjórn hans. (Sig. Sigurðsson: Það er nóg um slíka menn í Árnessýslu). Annað sagði mér maður, sem þar er þó vel kunnugur. Hann hélt, að þeir væri fáir þar í sýslunni, sem þetta starf gæti tekið að sér, og ekki væri bendlaðir við sparisjóðinn þar á einhvern hátt. (Sig. Sigurðsson: Eg þekki það nú eins vel og hver annar). Annars hélt eg, að þessi lög væri ekki ætluð Árnesingum einum, heldur landinu yfirleitt.

Eg er hræddur um, ef háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) ætlar að gera eftirlitið eins gott og örugt með þessari aðferð sinni, að þá verði honum erfitt að gera kostnaðinn við það minni. Það er vitaskuld, að minna fé eyðist í ferðakostnað, en sýslu-eftirlitsmennirnir verða líka altaf lengur að starfinu, því að þeir geta aldrei haft eina mikla æfingu og landseftirlitsmaðurinn, og hafa þess vegna ekki eins góð tök á að sjá fljótt yfir það, sem gjöra þarf. Eg hygg því, að það verði aldrei mikill sparnaður að hafa sýslueftirlitsmenn, frá því að hafa einn eftirlitsmann fyrir alt landið.

Eg held, að eg hafi þá svarað háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) að mestu leyti. Eg er því miður ekki reiðubúinn að svara háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), því að reynslan, sem hann bygði alt á, hefir enn ekki sýnt sig ; hún liggur langt fram undan, en er ekki hér til umræðu.