29.07.1914
Neðri deild: 24. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

75. mál, sparisjóðir

Framsögum. meiri hl. (Guðm. Hannesson):

Áður en gengið er til atkvæða vil eg benda á það, að skoðanir eru nú við umræðurnar skiftar mjög um eitt atriði: hvort einn maður bankavanur skuli líta eftir öllum sjóðunum eða einn maður í hverju héraði. Mér leizt í fyrstu vel á að haga þessu svo, sérstaklega vegna þess, að innanhéraðsmenn gæti betur metið tryggingar sjóðanna. Eg hvarf þó frá, þessu við nánari athugun og held, að svo muni fleirum fara.

Eftirlitsmaður í sveit hverri þyrfti að vera mörgum óháður, fleirum en líklegt er að mögulegt sé. Hann má ekki vera háður stjórn sparisjóðsins, ekki skuldunautum hans, ekki ábyrgðarmönnum þeirra. Ærið hæpið má ætla að svo verði víða, sízt að stjórnarráðið kunni svo menn að velja.

Það er þó ekki þetta, sem mér veg mest í augum. Eg sé, að sparisjóðir vorir aukast og eflast, — verða smámsaman að smábönkum, sem reka margháttuð störf, og það jafnvel í stórum stíl eins og sparisjóðurinn á Eyrarbakka. Þegar sjóðirnir vaxa, verður eftirlitið ekki annarra meðfæri en bankavanra manna. Það kann að vera, að þeir sé ekki margir á landinu, en sé ekki unt að fá hæfan mann í bönkunum hér, þá fást þaðan af síður margir sinn í hverri sveit.