18.07.1914
Neðri deild: 15. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

7. mál, girðingar

Magnús Kristjánsson:

Það kom fram við 2. umr. þessa máls, að það leit svo út, sem allmargir þingmenn væri ekki fullkomlega búnir að átta sig á þessu máli. Niðurstaðan varð sú, að atkvæðagreiðslan var ekki sem ljósust, og allmargir þingmenn greiddu ekki atkvæði. Eg hygg, að þetta stafi af því, að mönnum þyki málið óljóst og hafi ekki sannfærst um að þessar breytingar væri til bóta, og þessvegna álít eg ekki brýna ástæðu til að þetta frv. nái fram að ganga nú. Sérstaklega álít eg það ekki til bóta, að í lögunum er gert ráð fyrir, að maður, sem af annars völdum verður að þola að girðing sé sett, sé skyldur til að taka þátt í kostnaðinum, án þess að nokkur takmörk sé fyrir því sett, að hve miklu leyti hann geti á honum lent.

En eftir þessu frumv. virðist því engin takmörk sett, hve mikinn hluta af kostnaðinum sé hægt að skylda hann til að greiða. Það er sérstaklega vegna þessa, sem eg hefði helzt kosið, að frv. næði ekki fram að ganga, einkannlega þar sem breytingin virðist ekki að öðru leyti hafa mikla þýðingu. Ég geri ráð fyrir, að það verði fært fram sem ástæða með þessu frumv., að hér sé opnaður vegur til þess að hægt sé að fá yfirúttekt. En eg verð að líta svo á, að það sé ekki nauðsynlegt að taka það fram sérstaklega, því að sjálfsögðu sé til þess ætlast, að um úttekt á slíkum mannvirkjum, ef til kemur, fari að öllu eftir fyrirmælum laga um bygging, ábúð og úttekt jarða.

Hvað breyt.till. viðvíkur, þá hefi eg ekki neitt verulegt á móti þeim, ef frumv. á annað borð á fram að ganga. En hvað seinni liðinn snertir, þá finst mér hann ekki alls kostar heppilegur. Eg sé ekki hvaða ástæða getur verið til þess að slá því föstu í lögunum, að sá hlutaðeigandi, sem ef til vill að eins hefir óhag af girðingu, skuli greiða helming kostnaðarins.

Eg skal svo ekki fara lengra út í þetta mál. Eg tel það ekki stórvægilegt, en vildi þó að eins gera grein fyrir mínu atkvæði. Eg tel frumv. ekki til bóta og held að það sé skaðlaust, þótt það næði ekki fram að ganga.