18.07.1914
Neðri deild: 15. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

7. mál, girðingar

Pétur Jónsson:

Eg hefi satt að segja gefið þessu máli fremur lítinn gaum. Eg hefi áður tekið fram, hve óheppilegt er þetta hringl með nýsamin lög og ósamboðið virðingu þingsins.

Eg verð að segja, að þegar eg athuga þetta frumv., þá sýnist mér sumar breytingarnar, sem farið er fram á, að vísu til bóta, t. d. ákvæðið um yfirúttekt. En mér finst breytingin ekki gera 8. gr. eins miklum mun skýrari eins og óakandi væri. Það er að vísu ráðgert í frv. það tilfelli, að það sé fleiri en tveir, sem taki þátt í girðingu milli landa. En fyrir því hefir ekki verið gert ráð í 8. gr. laganna. Þetta er að vísu umbót. En orðatiltækin um niðururjöfnun girðingarkostnaðarins eru heldur ekki nógu ljós. Það stendur oft svo á, að þeir, sem hlut eiga að máli, eru tveir sama megin í málinu, eigandi og ábúandi, en í frumv. er ekkert tekið fram um það, hvort það er heldur eigandi eða ábúandi, sem kostnaðinn á að greiða., eða hvernig því skuli haga þeirra í milli. Úr þessu á að bæta með brt. á þskj. 124, með því að ákveða, að eigandinn skuli greiða girðingarkostnaðinn. Eg get þó ekki felt mig við það, því að það er tæpast framkvæmanlegt í öllum tilfellum, t. d. ef hið opinbera á í hlut. Það er varhugavert að vera að leggja óákveðnar fjárkvaðir á hið opinbera. Þetta getur því ekki staðið undantekningarlaust, og vil eg vekja athygli á, að það þyrfti að athugast betur. Það mun þó naumast vera viðkunnanlegt, að setja nefnd í málið nú, en eina og sakir standa, get eg ekki greitt því atkvæði, enda rétt að þetta biði þangað til málið er betur athugað.