20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Björn Hallsson :

Það hefir stundum verið tekið fram hér í deildinni, að fullmikið væri gert að því að breyta nýjum lögum. Um það geta verið skiftar skoðanir. En eg er nú þeirrar skoðunar, að full ástæða sé að breyta lögum, þótt lítt reynd sé, ef breytingin virðist réttmæt.

Eg get tekið undir með hv. þingm. S.-Þing. (P. J.), að álitamál er, hvort hér sé um slíka réttmæta breyting að ræða. Mér er ekki kunnugt um vilja meirhluta þjóðarinnar í þessu efni, því að það get eg ekki talið meiri hluta þjóðarinnar, þótt einstakar sýslur hafi óskað breytinga í þá átt, sem frumv. fer fram á. Mér er ekki kunnugt um neinar slíkar óskir í mínu kjördæmi. Úr því nú að ekki liggja fyrir óskir meiri hluta þjóðarinnar um þetta, þá finst mér réttara að fresta breytingunum. Því er eg samþykkur þeirri rökstuddu dagskrá, sem háttv. þingm. S.-Þing. (P. J.) kom fram með.

Um það má deila, hvort heppilegra sé, að tillögin sé séreign hreppa eða sýslna. Þar sem eg þekki til bezt, á Fljótsdalshéraði, er mikill munur á, hverjum hreppum er hættast. Sumir hreppar þar eru í mjög lítilli hættu fyrir harðindum, en aftur aðrir allmikilli, ef illa árar. Eg. fyrir mitt leyti álít bezt til fallið, að tillögin sé, eins og er, séreign hverrar sýslu, og þá mundi sjóðurinn koma að sameiginlegum notum, til varnar þeim hreppum, sem verst væri staddir innan sýslu. Enda er hverjum einstökum hrepp ekkert gagn að sínum sjóð á meðan sjóðirnir eru að stækka, en sem heild fyrir heila sýslu geta þeir komið að talsverðum notum.

Mér er þetta ekkert kappsmál, og mundi beygja mig undir þjóðarviljann. En mér hefir skilist svo sem von mundi á fleiri breytingum bráðlega, en það gerir hinn mesta glundroða að breyta þannig lögunum þing eftir þing. Því tel eg rétt að leita álits sveitastjórna um málið og haga breytingunum eftir þeim tillögum.