20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Bjarni Jónsson :

Eg get skilið það, að ýmsir menn vóru í fyrra á móti þessari sjóðstofnun, því að þá hafði gengið góð tíð um langan aldur, og mönnum fanst því engin ástæða til að búast við hallæri, og þess vegna ekki heldur ástæða til að tryggja líf þjóðarinnar gegn þeirri hættu, sem af hallæri stafar. En eg á óhægara með að skilja það, að nokkur maður skuli nú amast við þessu litla, sem þingið gerði í fyrra til þess að tryggja landsfólkið gegn óáran og hallæri. Mig undrar þetta stórlega, því að síðastliðinn vetur og vorið hefir sýnt greinilega, að það var ekki ófyrirsynju, að hafist var handa gegn voðanum — það var of seint gert en ekki of snemma.

Eg býst við, að mörgum mundi nú þykja allfýsilegt, að slíkur sjóður hefði verið stofnaður fyrir 10–20 árum, svo að þeir gæti gripið til hans nú til að kaupa sér fé í staðinn fyrir það, sem þeir hafa felt. Og ekki hefði það síður verið, ef ís hefði lokað öllum höfnum á Norðurlandi frá því fyrir sumarmál og fram 1 ágústmánuð, eins og oft hefir átt sér stað, og enn getur komið fyrir. Menn vilja einangra sig og ekki fórna sér fyrir aðra að raunalausu, heyri eg. En hvaða tryggingu hafa þeir góðu menn fyrir því, að þeir þurfi fremur að fórna sér fyrir aðra heldur en aðrir fyrir þá ? Hvernig geta þeir átt víst, að ástandið verði bezt í þeirra hreppi? En eg þarf ekki að spyrja; það er oftast svo, að þeir, sem eru ófúsastir að hjálpa öðrum, eru gírugastir í að þeim sjálfum sé hjálpað.

Eg skil ekki hvers vegna menn vilja breyta þessari handaskömm, sem þingið lét eftir sig í fyrra, og gera hana að enn meiri handaskömm. Því að það var handaskömm og annað ekki, að nokkuð af þessum sjóði skyldi vera gert að séreign, og þess vegna er það enn meiri handaskömm, ef hann verður gerður að enn meiri séreign. Eða hví vilja menn ekki stiga sporið út, og skipa hverjum manni að stinga peningunum niður í sína eigin buddu. Landssjóður getur lagt á móti, og þá getur hver maður fengið fé úr honum þegar í hans buddu þrýtur. Því er hvort sem er svo farið um flesta menn, að þeim er ávaxin taug frá buddunni til hjartans. Eftir hugsanagangi þeirra manna, sem vilja hafa séreignina sem fullkomnasta væri þetta ákjósanlegasta fyrirkomulagið, því að þá þyrfti enginn að fórna sér fyrir annan. Það er einkennilegt fyrir íslenzku þjóðina, að ef eitthvert þarft mál á að framkvæma, þá strandar það alt af á eigingirni einstaklinganna. Það hefir á öllum öldum teymt þjóðina út í alt það böl, sem hún hefir orðið að þola. Það var einstaklingsrígur og eigingirni, sem steypti henni í upphafi. Það var Nesjakóngs hugsunarhátturinn, og hann er alt af við lýði. En fé úr landssjóði viljum vér allir hafa — það vantar ekki.

Eins og eg drap á áðan, var það galli á lögunum og á móti anda þeirra, að sýslurnar skyldi hafa nokkra séreign. Það var eigingirninnar sök. Eftir anda laganna á þessi sjóður að vera sameiginleg eign allra landsmanna, svo að þeir landshlutarnir, sem vel eru settir í tilliti til hallæris, beri byrðarnar með þeim landshlutunum, sem illa eru settir. Þessi breyting, sem nú er farið fram á, að hver hreppur eigi sín tillög sjálfur, er sprottin af sömu eigingirninni. Sumir hreppar eru svo vel settir, að þeir þurfa aldrei á þeim peningum að halda, sem þeir leggja í sjóðinn. Þeir gera því ekkert annað en að ginna landssjóðinn til þess að leggja fram fé á móti sér. Og útkoman verður sá, að landssjóður leggur tiltölulega hálfu meira fé fram til hallærisvarna, en til var stofnað í upphafi.

Frumvarpið fer algerlega í öfuga átt og á þess vegna að deyja. Lögin vóru nægilega illa úr garði gerð í fyrra, það er óþarfi að spilla þeim meira.