03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

57. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Guðmundur Hannesson:

Hér er þetta ekkert kappamál, en eg vil að eina benda á það, að það vakti aldrei fyrir mér, að kippa burtu þeim aðstoðarlæknum sem nú sitja í embættum þessum. Það mun ekki lagalega fært.

Og eg kannast við það, að nú er meiri ástæða til þess að halda aðstoðarlækninum á Ísafirði meðan enginn læknir kemur í Bolungarvík. Þessir aðstoðarlæknar voru til áður en þessi lög vóru samin, en þá vóru þeir lausari fyrir, því að fé til þeirra var veitt í fjárlögum. Tilgangurinn með þeim var tvenns konar. Fyrst og fremst að auka læknishjálpina og svo í öðru lagi að ungir læknar gæti þannig fengið æfingu í lífsstarfi sínu.

Eg álít ekki miklu tapað, þótt þetta frv. falli nú. Eg er sannfærður um, að það kemur aftur, þegar tekið verður fyrir að lagfæra læknaskipun vora yfirleitt. Það þarf ekki annað en að benda á, að þessir menn hafa ekki nema 800 kr. í árslaun og engin eftirlaun, svo að hér er eigi um regluleg læknaembætti að ræða. Þau eru orðin til í misgripum, og hvort sem frv. er nú samþ. eða ekki, þá verður þetta lagfært á sínum tíma.