10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

113. mál, kosningar til Alþingis

Jón Jónsson:

Háttv. þingmaður Mýramanna hefir nú sýnt háttv. 1. þm. Reykjavíkur fram á, hve rangt hann hefir fyrir sér í þessu máli. Eg vona nú að honum hafi skilist það. Það er synd að segja, að háttv. 1. þm. Rvk. hafi ekki sýnt rögg af sér með að reka erindi kjördæmisins. Reyndar er hann nú farinn að gera bragarbót og taka aftur sumar tillögur sínar.

Háttv. þingmaðurinn leggur til að lagt sé niður kjördæmi til þess að fá fleiri þingmenn fyrir Reykjavík. Það er auðvitað, að Seyðisfjörður er minsta kjördæmið, en þó munar litlu, að kjósendur sé þar eins margir og í aumum öðrum, t. d. Austur-Skaftafellsýslu.

Í einni breytingatill. sinni lagði hann til að Norður-Múlasýsla kysi með Seyðfirðingum. Eg skal geta þess, að 4 kjördæmi á landinu hafa færri íbúa að tiltölu en Norður-Múlasýsla. Tvö einmenningskjördæmi hafa færri íbúa til samans en Norður-Múlasýsla. Skaftafellssýslurnar báðar hafa 412 kjósendur, en Norður-Múlasýsla 469. Menn sjá á þessu, að erfitt er að taka eitt til tvö kjördæmi út úr, án þess að gjöra þeim rangt til. Í rauninni er þetta vandræðamál fyrir háttv. 1. þm. Rvíkur, og hann má vara sig á að gera ekki öðrum rangt, þótt hann vilji gera hreint fyrir sínum dyrum. Hann hefir nú tekið aftur tillöguna um Norður-Múlasýsla, en varatillagan um að leggja niður Seyðisfjarðarkjördæmi er eftir. Það er ilt að fara fram á, að leggja niður einstök kjördæmi í landinu, hvorki er það sanngjarnt gagnvart viðkomandi kjördæmi, og svo er vitanlegt, að þeir sem í kjördæmunum búa verða sáróánægðir. Það gefur að skilja, að þeir álíta sér gert rangt með því að svifta þá þessum rétti. Eg sé engan veg til að lagfæra ranglætið gagnvart Reykjavík á þenna hátt. Eina sem mér finst geta komið mála, er að bæta við tveim þingmönnum í Rvík. En þá er að athuga, hvort þetta er nauðsynlegt fyrir Rvík. Þegar eg lít á kjósendatöluna, þá rek eg augun í, að hún er há, í samanburði við önnur kjördæmi. En eg veit ekki, hvort það er almenn ósk kjósendanna sjálfra, að þeir fái að kjósa fleiri þingmenn. Eg gæti fremur trúað, að það væri einstakir menn er berðist fyrir þessu, bæði til þess að ná áliti hjá kjósendum og svo til þess að fá tækifæri til þess að komast á þing. Þetta eru meðmæli með Reykvíkingum, því að það sýnir, að þeir hafa marga menn í sínum hóp, sem komið geta til greina í þessu efni. Eg er viss um, að það er meira frá einstökum mönnum en kjósendum, að þessi alda er runnin. Það vita allir, að kjósendurnir í Reykjavík standa betur að vígi en aðrir kjósendur á landinu. Þeir geta talað við þingmenn og skýrt fyrir þeim sín áhugamál, og það kemur ærið oft fyrir, að þingmenn verða fyrir áhrifum af viðtali við Reykvíkinga.

Eg vil ekki ganga að því að fjölga þingmönnum í þetta sinn, til þess að Reykjavík fái jafnrétti í þessu efni. Mér sýnist það ekki hættulegt fyrir Reykjavík þó að það dragist, að þeir fái fleiri þingmenn. Ef eg hefði verið sannfærður um það, þá hefði eg helzt viljað fjölga þingmönnunum um tvo, fremur heldur en Reykjavík fengi þingmann á kostnað annarra kjördæma.

Það er eitt að athuga í þessu máli, að engir þingmenn standa eins illa að vígi með atkvæði sitt sem Reykvíkingar. Það hefir komið fyrir oftar en einu sinni, að þingmenn —Reykvíkinga hafa orðið fyrir alt of miklum áhrifum frá kjósendum sínum. Og það er óheppilegt, að þingmenn fái ekki að njóta sín sem bezt.

Eg verð að mælast til þess, að háttv. deild felli breyttill. háttv. 1. þm. Reykvíkinga, jafnvel þótt eg játi, að sumt mælir með því að samþykkja þær.