25.07.1914
Neðri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

34. mál, friðun fugla og eggja

Guðm. Eggerz:

Það var alveg rétt tekið fram hjá háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), að háttv. þm. Dal. (B. J.) hafði ekkert við þetta ákvæði að athuga í fyrra, þegar örninn var friðaður í fimm ár. Það hljóta því að vera einhverjar sterkar ástæður, sem knýja hann til að koma með þetta frv. nú, og vér vitum reyndar, hverjar þessar ástæður eru. Örninn hafði sem sé í fyrra verið grunaður um að drepa lömb fyrir einhverjum háttv. kjósanda í Dalasýslu. Eg vildi nú gjarnan fá skýrslu um það, hve mörg lömb örninn hefir drepið, og ekki einungis um töluna, heldur og um það, hve mörg hafi verið hvít, hve mörg svört og hve mörg mórauð. Meðan engin skýrsla liggur fyrir um þetta, engin dánarvottorð, tel eg mér ekki skylt að trúa því, að örninn hafi drepið nokkurt lamb. En þó svo væri, að arnargreyið hefði drepið nokkur lömb í Dalasýslu, þá vildi eg heldur borga eitthvað fyrir lambaskammirnar, heldur en að fara að ófriða örninn. Mér kom það nokkuð spanskt fyrir, og hafði sízt dottið það í hug, að háttv. þm. Dal. (B. J.) færi að flytja svona frv., og eg hefði miklu fremur getað búist við að heyra hann halda skáldlega ræðu um það, hve fallegur þessi konungur fuglanna sé, heldur en að bannsyngja hann fyrir að hafa drepið nokkur lömb vestur í Dalasýslu. »Horlömb«, heyri eg að einhver segir hérna nálægt mér, og dettur mér þá í hug að spyrja háttv. þm. Dal. (B. J.) hvort það gæti ekki skeð, að eitthvað annað en örninn hefði banað lömbunum.

Mér þykir vænt um að heyra, að hv. 1. þm. Árn. (S. S.) vill friða örninn, því að hann er ekki vanur að halda því fram, sem skaðlegt er fyrir bændur. Þess ber og að gæta, að nú orðið eru ekki til nema örfáir ernir á landinu.

Fyrir nokkrum árum spurði eg mann, sem þekti öll arnarhreiður á landinu, hve margir ernir væri hér til. Það var Hörring fuglafræðingur, og kvaðst hann hafa talið hreiðrin, og vóru þau þá 14. Víst er um það, að mér er kunnugt um, að í mörg ár hefir ekki sést örn fyrir austan. Það kann reyndar að hafa komið fyrir, að hann hafi sést einu sinni eða tvisvar í einum eða tveimur hreppum, en í flestum hreppunum hefir hann alls ekki sést. Ástæðan til þess, að örninn eyðist svo mjög, er sú, að hann drepst af eitri, sem sett er fyrir tóur. Eins og kunnugt er, er eitrað fyrir tóuna með rjúpum, og í það gengur örninn. Af sömu ástæðum er líka annar fugl að eyðast, og það er valurinn.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) taldi það erninum til óhelgi, að hann væri skaðlegur í varpi.

Eg get ekki skilið; að hann sé skaðlegri 1914 en 1913.

Eg er alinn upp í eyju á Breiðafirði, og eg heyrði þess aldrei getið, að örninn skaðaði varpið þar.

Annars verð eg að benda háttv. þm. Dal. (B. J.) á það, af því að hann virðist ekki vita það, að örninn er ekki sundfugl og verpir ekki í eyjum, heldur verpir hann í fjöllum.

Eg get ekki látið hjá líða að snúa mér að háttv. 1. þm. Rangv. (E. J.), því að það gekk hneyksli næst að heyra, hvernig hann talaði. Hann sagði, að vér ættum að gera alt til að útrýma ránfuglum: Eg þekki ekki þingið hjá Hottentottum, en eg býst við, að enginn Hottentotti hafi þessa skoðun. Eg skal nú leyfa mér að telja upp þá fugla, sem hann vill eyða. Þeir eru: örn, valur, kjói, smyrill, hrafn, svartbakur og veiðibjalla. (Bjarni Jónsson: Hrafninn er ekki ránfugl). Eg er miklu betur að mér í fuglafræði en háttv. þingm. Dal. (B. J.) og eg veit, að hrafninn er ekki ránfugl, en eg tala hér í anda og eftir skilningi þeirra manna, sem kalla alla þá fugla ránfugla, sem drepa lömb.

Eg hefi nú lokið máli mínu og skal að eins að endingu taka það fram, að mér þykir vænt um fuglana og er ánægja að því að sjá þá, og eg vona að háttv. deild sýni þá sanngirni gagnvart erninum, að samþykkja ekki þetta frumvarp.