10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

113. mál, kosningar til Alþingis

Jón Magnússon :

Eg sá ekki ástæðu til að tala við 2. umr., því að eg hafði reynt að skýra skoðun mína sem greinilegast í þessu máli við fyrstu umræðu, og vil ekki endurtaka það, sem eg sagði þá. Málið hefir líka verið fullvel skýrt og rakið, bæði af háttv. þm. Ak. (M. gr.) og háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.), og þar að auki ekki til neins að vera að tala eða fjölyrða um það, úr því að meiri hlutinn hefir þegar ráðið að fella frumvarp stjórnarinnar. Þar af leiðir þó ekki, að ekki megi lagfæra það misrétti, sem kjósendur í Reykjavík verða nú fyrir. Og þess vegna er það rangt, að vilja ekki breyta þessu atriði, þó að menn vilji ekki gjörbreyta allri kjördæmaskipun í landinu.

Eg hafði ætlað mér að koma fram með sams konar brtill. eina og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir komið fram með, og er eg honum mjög þakklátur fyrir tillöguna einmitt af því, að hann er minna við þetta mál riðinn en eg. Hann er ekki að berjast fyrir rétti kjördæmis sína, hann er hér að eins að bera fram sanngirniskröfu og réttlætiskröfu. Eg skil ekki, að nokkur maður geti neitað því, að þetta er fylsta réttlætiskrafa. Það er mesta misrétti, að Reykvíkingar hafi svo lítinn hlut í löggjafarstarfi þjóðarinnar.

Það er mín skoðun, að hver kjósandi eigi að hafa tiltölulega jafnan rétt til að hafa áhrif á löggjöf landsins. En eg get samt skilið þá menn, sem taka vilja tillit til annara atvika, svo sem sýsluskiftingu o. fl., en fyrir mér er það aðalatriðið, að hver kjósandi geti haft sömu áhrif á löggjöf landsins, hvort sem hann býr í Reykjavík eða annarstaðar.

Það er búið að ræða þetta svo vel, að sýnt er og sannað, að vér höfum rétt fyrir oss, en samt hafa komið fram mótbárur frá nokkrum þingmönnum, sem eg vil gera athugasemdir við.

Mótbárurnar hníga allar í þá átt, að ekki sé þörf að láta Reykjavík hafa fleiri þingmenn, af því, að hér eigi sæti á alþingi ýmsir menn úr Reykjavík, sem kosnir eru af öðrum kjördæmum.

En þetta segja menn af því, að þeir vita ekki eða skilja ekki, hvað átt er við með almennum kosningarrétti og umboði, sem kjósendur fá þingmönnum.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) mælti á móti frumv., en það er ekki svo undarlegt, því að hann er á móti öllum útgjöldum landasjóðs, sem ekki snerta hans kjördæmi. (Sigurður Sigurðsson: Það er ekki satt). Ja, svo að segja öllum, að minsta kosti öðrum en beint venjulegum og lögmætum gjöldum.

Það er ekki svo að skilja, að bætt sé úr öllu misrétti, þó að brt. háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) verði samþykt, en hún er þó spor í rétta átt. Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) Sagði það fráleitt að fjölga þingmönnum Reykvíkinga, og telur að rétti þeirra sé fullvel borgið, eins og nú er. En það er alls ekki það, sem hér er um að ræða, heldur hitt, að allir kjósendur hafi jafna »representation« á þingi.

Það er altaf verið að klifa á því, hvað Reykjavík hafi borið mikið frá borði, þegar hún fekk höfnina, en menn gæta þess ekki, að hún er gerð fyrir alt landið, og það hefir ekki verið veitt meira fé að tiltölu til Reykjavíkur en annarra kjördæma; því að menn verða líka að gæta þess, hvað landssjóður fær héðan í aðra hönd af tollum o. fl. Héðan kemur að minsta kosti fjórði hver peningur, sem í landssjóð rennur.

Það er ennfremur fundið bænum til foráttu í þessu máli, að hann njóti svo mikils gagns af embættismönnum og skólum, sem hér eru. En ekki er það þinginu að þakka, því að það mundi hafa þá annarsstaðar, ef það sæi sér hag í því. En að öðru leyti kemur það atriði ekki þessu máli minstu vitund við.

Þá var því haldið fram, að ekki væri rétt að auka þingmannatölu í Reykjavík, af því að margir kjósendanna væri úr öðrum kjördæmum, en þá mætti eins segja, að Reykjavík ætti ekki að hafa neina fulltrúa, því að mikill fjöldi bæjarmanna er aðkominn úr öðrum sýslum.

Þá hélt háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) því fram, að þinginu mundi hvorki aukast vit né þekking, þó að tveim þingmönnum væri við bætt. En það er engin ástæða til að ætla, að Reykvíkingar sendi fremur öðrum þá menn á þing, sem bæði skortir vit og þekking.

Eg tel það alls ekki úr vegi að fjölga þingmönnum. Eg held að margir hafi jafnvel fundið til þess nú á aukaþinginu, að þingmenn væri fullfáir, hvað þá á aðalþingi. Og þegar af þeim ástæðum tel eg þinginu gagn í, að þingmönnum verði fjölgað, og þá að sjálfsögðu úr Reykjavík. Og atkvæðagreiðslan við aðra umræðu fer ekki að neinu leyti í bága við þá breytingartill., sem hér er um að ræða.

Háttv. þm. Mýr. (J. E.) talaði mjög svipað, taldi það óviðeigandi að tvöfalda þingmannatölu Reykjavíkur. Eg skildi hann ekki vel, en mér fanst hann vera þeirrar skoðunar, að gengið væri með þessu á rétt annara kjósenda, og að þetta væri ekki nauðsynlegt vegna áhugamála bæjarins.

Það er satt, að Reykjavík er ekki flækt í hreppapólitík, og þess vegna get eg skilið, að háttv. þm. Mýr. (J. E.) vilji ekki fjölga þingmönnum hér, því að hann telur hreppapólitík mesta þingmannskost, segir að eigingirni og sjálfselska sé mestu þingmannakostir, og eg skal viðurkenna., að það er fallegt af honum, að játa þetta svona hreinskilnislega — þó að eg geti ekki metið hann þingmann að meiri fyrir það.

Hann talaði um, að það mundi hafa verið »agiterað« í 2. þm. Árn. (E. A.) í þessu máli, og mun háttv. 2. þm. Árn. sjálfur svara til þess. En eg hefi litið svo á, að hann hafi borið þessa brt. fram af því, að hann er of skynsamur og sanngjarn maður til þess að sjá ekki, hvað sanngjarnt er og rétt í þessu máli.

Sumir hafa haldið því fram, að binda kjördæmaskifting við sýsluskifting, og eg get skilið, að það sé eðlilegt frá ýmsra sjónarmiði. En þegar sagt er, að ekki megi taka þingmann af Seyðisfirði, þá sé eg ekki, hvernig hægt er með sanngirni að neita Hafnfirðingum um þingmann. Háttv. 1. þm. N.-Múl. (B. H.) taldi þetta mikið vandræðamál, en eg sé ekki, að hér sé stórt í ráðist, þó að bætt væri við tveim þingmönnum í Reykjavík. Kostnaðurinn, sem af því leiddi, væri þó ekki meiri en sem svaraði lítilfjörlegum bitlingi frá þinginu, og það ætti vel að borga sig.

Það er undarlegt, þegar menn vantar ástæður, hvernig sumir skynsamir þingmenn — eg verð að biðja afsökunar á orðatiltækinu — hvernig þeir heimska sig, liggur mér við að segja.

Háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) taldi það ókost, að kjósendur gæti haft áhrif á þingmenn. En hvaða vandræði ætti svo sem að stafa af því, þó að þingm. geti staðið í sambandi við kjósendur sína um þingtímann. Eg sé ekki betur en að það væri einmitt kostur.

Hinn háttvirti þm. kvaðst ekki vilja ganga að þessu nú, en þess þarf einmitt nú vegna stjórnarskrárbreytingarinnar, því að ef hún verður samþ., þá eykst tala kjósenda mjög mikið og misréttið verður ennþá tilfinnanlegra hér eftir en áður.

Það hefir áður heyrst hér, að þetta bætist upp við það, að Reykjavík ráði svo miklu við kosning hinna landkjörnu þingmanna, en hún ræður þar ekki meira en að sínum hluta, að réttri tiltölu við fólksfjölda.

Margar þær ástæður, sem fram hafa komið, eru sprottnar af misskilningi, og þarf eg ekki að mótmæla hverjum einstökum, því að margir hafa sagt hið sama.

En ein mótbára er það enn, sem eg enn vil athuga.

Háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) var að tala um hina æfagömlu kjördæmaskifting. Eg veit nú ekki, hvað hinn háttv. þm. kallar æfagamalt, en eg get ekki kallað Seyðisfjörð æfagamalt kjördæmi. Seyðisfjörður var gjörður að kjördæmi 1903, að eins til bráðabirgða. (Benedikt Sveinsson: Hvers vegna fekk Reykjavík þá ekki þann þingmann?) Já, það má segja, að það hafi verið yfirsýnd og klaufaskap þingmanna bæjarins að kenna. En eg sé enga ástæðu til þess nú, að Seyðisfjörður og Norður-Múlasýsla hafi nema 2 þingmenn.

Kjördæmaskiftingin þar er að minsta kosti ekki æfagömul, og þó að svo væri, þá verður að breyta eftir tíma og ástæðum, ef staðhættir breytast.

Eg vona að þingið samþykki brtill. háttv. 2. þm. Árn. (E. A.). (Sigurður Sigurðsson: Það vona eg ekki!). Eg hafði aldrei búist við, að háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) samþykti hana, af því að hún snertir ekki Árnessýslu.