12.08.1914
Neðri deild: 42. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

104. mál, varnargarður á Siglufjarðareyri

Frsm. (Einar Arnórss.):

Nefndin, sem kosin var til þess að fjalla um þetta mál, komst að þeirri niðurstöðu, að réttast mundi eftir atvikum að beina þessu máli til landsstjórnarinnar, með þeim formála, sem tiltækilegur þætti.

Fjáraukalaganefndin sæla hafði þetta mál til meðferðar og taldi hún þörf á því, að þessi varnargarður yrði lagður. Þessi síðari nefnd hefir bygt á áliti hennar. Enda hefir nefndin heyrt úr annari átt, að þörf væri á þessum varnargarði, það er frá biskupi landsins. Vér heyrðum líka frá biskupi, að ekki væri ómögulegt, að hægt myndi að fá bráðabirgðalán til þessa úr kirkjusjóði.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál, en vona að háttv. flutningsmaður taki sitt frumvarp aftur og láti sér nægja góð meðmæli nefndarinnar og deildarinnar.