03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Bjarni Jónsson:

Háttv. þm. V.- Ísf. (M. Ó.) og háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) eru báðir sammála um það, að nauðsynlegt sé að eiga frið við Englendinga á þessum tímum. En háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) dregur ekki réttar ályktanir um það, hvað gera eigi, út frá þessari skoðun hans. Hann vill leggjast á móti því, að kippt sé burtu því misrétti, sem um nokkur ár hefir átt sér stað, gagnvart útlendum fiskimönnum í samanburði við íslenzka fiskimenn. Ef vér viljum eiga vingott við Englendinga, þá er einmitt ágætt tækifæri til þess núna að sýna þeim vorn góða hug, með því að nema þetta misrétti í burtu. Það mundi sýna Englendingum, hve réttlát og góðgjörn þjóð vér erum, að vér látum það sama ganga yfir vora fiskimenn og þeirra. Hitt get eg ekki skilið, að þeir leggi nokkuð upp úr því, að vér hækkum dálítið lágmark sekta fyrir ólöglegar veiðar, jafnt þeirra manna og vorra. Þessa gætir ekki mikils vegna þess, að sjálfar sektirnar nema minstum hluta af þeim útgjöldum, sem þeir er brotlegir verða, eru dæmdir í. Eg held því, að það sé vel ráðið, að frv. þetta gangi óáreitt í gegn um þingið, þar sem eg hefi bent á ósamræmið milli ræðu og óskar háttv. þm., sem einmitt mælir með, að þessu atkvæði verði haldið.