13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

36. mál, friðun á laxi

Sigurður Sigurðsson:

Hún er allrar virðingar verð þessi umhyggja háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) fyrir Árnessýslu. Við það könnumst við fúslega þingmenn sýslunnar. Annars skal eg upplýsa það í þessu sambandi, að þetta mál hefir lengi verið á döfinni í Árnessýslu, og er langt frá, að farið hafi verið á bak við þá, sem búa í efri hluta sýslunnar. Það hefir oft verið borið undir þá, og síðast á þingmálafundunum í vor. En þeir hafa skiljanlega ekki kært sig um, að frá sér kæmi bein áskorun um þessa breytingu. Á hitt leggja þeir meiri áherzlu, að byrjað verði nokkru seinna að leggja netin í ána að vorinu en verið hefir, og hafa sýslunefndir heimild til að ákveða hvenær veiðitíminn byrjar og endar í hverju héraði. Eg ætla ekki að gera þetta að neinu kappsmáli og er ekki mótfallinn því, að nefnd verði sett í málið, þótt eg hinsvegar álíti það óþarft. Eg skal ekki segja, hvort þetta getur komið í bága við aðrar veiðiár, en hygg þó ekki. Sannleikurinn er sá um þessa 36 stunda friðun á viku, að hún hefir ekki þótt bera sýnilega ávexti. Það mætti hugsa hér, að hún hefði einhver áhrif þessi friðun, ef svo hittist á, að samhliða henni ætti sér stað ör laxganga upp eftir ánni, en það er engin trygging fyrir því, að þetta fari saman, þó það geti vitanlega komið fyrir, því að friðunin er bundin við helgar en ekki við göngu lagins. Laxganga fer nokkuð eftir vatnavöxtum, straumum og öðrum atvikum, sem eg hirði ekki að fara út í hér. Sem sagt hefir þessi friðun ekki borið árangur, og auk þess hefir hún ekki verið rækt sem skyldi. Eg vona því að málinu verði leyft að ganga til 2. umr., hvað sem um nefndarsetning er að segja.