08.09.1915
Efri deild: 55. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

121. mál, þegnskylduvinna

Jósef Björnsson:

Jeg hefi ekki ástæðu til að tala langt mál í tilefni af ræðu háttv. þm. Seyðf. (K. F.), því það var lítið, sem okkur bar á milli, og ræða hans snerti ekki rök mín fyrir dagskránni, nema að mjög litlu leyti.

Háttv. þm. Seyðf. (K. F.) talaði um. það, að hann vildi ekki láta lögbjóða þegnskylduvinnuna, nema því að eins, að 9/l0 hlutar kjósenda landsins ljeðu henni atkvæði sitt. Jeg skil ekki, að hinum hv. þm. detti í hug, að svo margir kjósendur ljái því atkv. sitt. Það lítur jafnvel svoút, sem hann ætlist til þess, að málinu verði skotið til nýrrar og nýrrar atkvgr.,uns hann nær þessum 9/10 með þegnskylduvinnunni. Og milli allra þessara atkvgr. fara náttúrlega fram margs konar bollaleggingar, er líka þurfa tíma. Það lítur því sannarlega ekki út fyrir, að hv. þm. hugsi sjer skjótar framkvæmdir á málinu.

Jeg lít svo á, að það sje skylda þeirra, er greiða atkv., að mynda sjer rökstudda skoðun um málið, og til þess þeir geti; það, verður að leggja öll málsskjöl fram á borðið, fullnægjandi fyrir þá til að byggja atkv. sitt á; og þeir, sem spyrja, eru skyldir til að láta af hendi þau gögn. Ef þetta er ekki gjört, þá hlýtur dómurinn að verða að meiru eða minna leyti órökstuddur og árangurinn af atkvgr., hvort hún verður játandi eða neitandi, hending ein og einskis virði.

Það hefir verið haft á móti bannlögunum, og það með talsverðum rjetti, að andbanningar hafi fyrir atkvgr. legið á liði sínu, og víst er um það, að þeir eiga mikið ámæli skilið fyrir það, að á Alþingi 1905, þegar atkvgr. var samþykt, þá hafði enginn þeirra þor eða dirfsku til að mótmæla atkvgr. með einu einasta orði.

Og þetta mál, sem hjer liggur fyrir, snertir ekki síður viðkvæma strengi en bannmálið.

Háttv. þm. Seyðf (K. F.) var mjer samdóma um að undirbúningurinn væri ónógur.

En á hverju eiga kjósendur þá að byggja dóm sinn? Á ónógum, ófullnægjandi undirbúningi? Verður það má ske ábyggilegur dómur? Nei. Þeir verða að fá eitthvað, til þess að byggja á dóm sinn, áður en þeir greiða atkv. með eða móti málinu, ef atkvgr. á að hafa nokkurs verða þýðingu.

Jeg gat þess, að sumir teldu þetta menningar- og uppeldismál, og gæti verið, að þeir hefðu nokkuð til síns máls. Og að þeim, sem málið styðja, gangi það til, að vilja efla með því þjóðrækni landsmanna, því hefi jeg ekki andmælt. En ætti það að geta gjört þetta, þá verður þjóðin að vera fús til að leggja á sig kvöðina.

Málið væri uppeldismál, ef menn lærðu að hlýða og vinna betur en áður, en jeg dreg það mikillega í efa, að menn læri það svo vel sje með vinnu í þriggja mánaða tíma. Háttv. þm. Seyðf. (K. F.) þótti það undarlegt, að jeg, sem verið hefði búnaðarskólastjóri og væri kennari, drægi það í vafa, að kensla þessi yrði að miklum og tilætluðum notum. En einmitt af því, að jeg hefi bæði fengist við verknám og verkkenslu, þá verð jeg að líta svo á, að þessi þriggja mánaða tími sje alt of stuttur til þess, fyrir margan unglinginn, að búist verði við því með nokkurri sanngirni, að veruleg verkkunnátta fáist, er þýðingu geti haft fyrir lífið yfirleitt, nje heldur umskapað hugsunarháttinn svo, að til verulegrar menningar horfi. Og mjer þykir það undarlegt, ef hann, sem er kennari, hefir ekki rekið sig á, að 3 mánuðir eru of stuttur kenslutími, ef ætlast er til verulegs árangurs af náminu, og það þó kenslan sje góð.

Og hverjir eiga að kenna verk þessi? Ekki eiga þó ungmennin að kenna hvert öðru, eða einhver sem ekki kann að kenna. Nei, það er vafalaust ekki meiningin, heldur hitt, að fá yfirburðamenn, til þess að hafa kensluna á hendi, svo að búast megi við nokkrum árangri. En hvað kostar góð og mentandi kensla í þessu sambandi?

Hafa menn gjört sjer það ljóst? Jeg efast mjög um að svo sje.

Og hvað kostar vinnan landið, þegar alt er með talið, sem til hennar er kostað? Hver er hagnaðurinn af henni í tölum? Jeg efa ekki, að háttv. þm: Seyðf. (K. F.) geti sagt eitthvað um þetta, en jeg efa, að hann geti nokkuð sagt, sem kallast geti sannanir. Og geti hann ekki, og aðrit, er líklega hafa talsvert hugsað málið, gefið glögg svör, hvernig halda þeir þá að aðrir sjeu settir, sem lítt eða nær ekki hafa um það hugsað?

Jeg endurtek það, er jeg áður sagði, að málið er of mikilsvert, til þess að spyrja kjósendur um það — láta þá dæma um það —, á meðan menn geta ekki rökstutt vilja sinn um það, jafnvel ekki þeir, sem mikið hafa um það hugsað, siðan það fyrst kom á dagskrá þings og þjóðar fyrir meira en heilum áratug síðan.