16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Ráðherra:

Jeg er ekki viss um, að jeg svari þessari fyrirspurn háttv. 1. þm. Reykv. (S. B.) rjett. Gjöri jeg það ekki, þá getur fyrv. ráðherra, þm. V.-Sk. (S. E.) bætt við. Eftir því, sem jeg best veit, þá liggja engin skjöl fyrir um þetta mál í Stjórnarráðinu, en fyrv. ráðherra hefir skýrt mjer frá því, að hann hafi leitað til manns í Kaupmannahöfn, Magnúsar Jónasonar cand. jur. & polit., og farið þess á leit við hann, að hann semdi frumv. um þetta efni, til þess að leggja fyrir þingið. Mjer var ekki kunnugt um þetta, fyrr en svo seint, að tíminn varð of naumur til þess, að jeg gæti gjört nokkuð í málinu. Meira get jeg ekki sagt, en ef til vill hefir háttv. fyrirrennari minn einhverju við að bæta.