20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Framsögumaður (Pjetur Jónsson :

Mjer finst í raun og veru ástæða til þess að taka fyrir þá venju, að skifta fjárl. í kafla og ræða hvern kafla sem sjerstakt mál. Þessi aðferð lengir umræðu að óþörfu. Hjer er hvort sem er ekki um mörg mál að ræða, heldur að eins um mörg atriði. Jeg get því ekki annað en hvatt til þess, að þeirri venju, er tíðkuð hefir verið nú að undanförnu, verði breytt, þar sem hún brýtur ekki bág við þingsköpin, því að með því móti yrði þessari umræðu lokið annað kvöld og á þann hátt spöruðust tveir dagar af þingtímanum. Eiginlega finst mjer að það taki mest til mín sem framsögumanna fjárlagan., ef nauðsyn væri á að skifta fjárlögunum í kafla við umræðurnar, og jeg skil ekki í að þingmenn fari að fylgja hinu fram að eins til þæginda fyrir sjálfa sig, því það lengir þingtímann að óþörfu um 2 daga.