21.08.1915
Neðri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sigurður Sigurðsson:

Fjárlaganefndin hefir ekki frekar en að undanförnu fengið einróma lof fyrir tillögur sínar. Hún hefir af aumum þótt íhaldssöm og varfærin og verið borið á brýn, að henni hafi verið mislagðar hendur. Jeg hjelt, að nú væru þeir tímar, að ekki væri með rjettu ástæða til að brigsla nefndinni eða einstökum þingmönnum um það, þótt þeir og hún vilji spara með tillögum sínum. Eða hver er þá meiningin með skrafinu, sem sífelt klingir um, að dýrtíð sje í landinu? Einhver sagði í dag, að ekki væri víst, nema atriðinu yrði bráðlega lokið. Þetta segja menn, þegar þeir vilja fá þingið til þess að sinna fjárkröfum sínum. En satt er það, að enginn veit, hvenær atriðinu ljettir af; það getur staðið eitt til tvö ár enn, eins og Englendingar hafa spáð, og það getur ef til vill staðið lengur.

Einhver háttv. þm. sagði, að nefndinni væru mjög mislagðar hendur, að því leyti, að hún vildi sumstaðar spara of mikið, en aftur væri hún á öðrum sviðum of örlát. Öllum getur yfir sjest. — Jeg er ekki frá því, að t. d. í 15. gr. mætti draga talsvert úr tillögum nefndarinnar.

Hæstv. ráðh. kom með þau skilaboð frá Krabbe verkfræðingi, að hann væri óánægður með athugasemd þá, er fjárlaganefndin hefir sett við aðstoðarverkfræðing hans. Þá athugasemd tók nefndin upp eftir tilmælum landbúnaðarnefndar. Nú er þess að gæta, að laun aðstoðarverkfræðings voru hækkuð í stj.frv. úr 2000 kr. upp í 2500 kr. Hins vegar var fjárlaganefndinni ekki kunnugt um, að starf hana væri svo mikið, eða tími hans takmarkaður, að hann gæti ekki sint þessu, er ræðir um í athugasemdinni. Athugasemdin er á þá leið, að aðstoðarverkfræðingur vitamálaverkfræðingsins sje jafnframt skyldur til að veita einstökum mönnum ókeypis leiðbeiningar um rafmagnsveitu til heimilisnota. Þetta var afar þýðingarmikið og nauðsynlegt. Og þessu ætti aðstoðarverkfræðingurinn að geta sint, og jeg tel víst, að honum hljóti að vera það ljúft. Jeg vona því, samkvæmt þessu, sem jeg hefi nú sagt, að þessi athugasemd fái að standa, þrátt fyrir skilaboðin, sem hæstv. ráðherra kom með frá Krabbe.

Þá vil jeg minnast á styrkinn til bókakaupa við Háskólann og styrkinn til útgáfu kenslubóka við sama skóla. Hæstv. ráðherra var mjög óánægður yfir tillögum fjárlaganefndarinnar í þeim efnum. Jeg skal kannast við, að sparnaðurinn á þessum liðum er ekki stórvægilegur, það munar ekki mikið um hverjar 100 kr. En þegar þarf að spara á annað borð, þá verður að klípa af öllu miður nauðsynlegu, og því, sem má fresta. Fyrir okkur vakir að spara fyrst og fremst þau útgjöld, sem við álítum að megi bíða um sinn, og er þetta eitt af þeim.

Hvað vegina snertir, þá vil jeg geta þess, að það voru þyngstu spor nefndarinnar, er hún sá sig nauðbeygða til að klípa af þeim styrk, er áætlaður hafði verið til ýmsra vegakafla. En í þessu efni, sem öðru, gildir hið sama, að nauðsyn brýtur lög. — Hjer hafa komið fram tillögur um að veita fje til að brúa Kjallaksstaðaá og Hamarsá. Jeg get ekki sjeð, að aðkallandi nauðsyn sje á að brúa þessar ár, síst Hamarsá, sem er lítið stærri en meðal bæjarlækur. Það eru margar ár á landinu, sem meiri nauðsyn er á að brúa en hana, ár, sem eru miklu vatnsmeiri og verri yfirferð. ar en hún. Fyrir því verður að fresta að brúa þessa á og báðar árnar að þessu sinni.

Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) talaði mörg fögur orð í sambandi við brúna á Jökulsá á Sólheimasandi. Hann skaut því til mín, hvort Skaftfellingar væru ekki góðir búmenn og jarðarbótamenn, og skal jeg með ánægju votta, að svo er. En mjer er ekki vel ljóst, hví þm. var að blanda búskap Skaftfellinga inn í þetta mál. Það sem skiftir mestu máli, frá mínu sjónarmiði, er það, hvort brúin á Jökulsá muni geta staðið og þannig komið að gagni. Mjer hafa sagt skýrir og kunnugir menn, sem jeg hefi átt tal við um þetta mál, að þeir áliti, að brú, sem kostaði 20–30 þús. kr., myndi geta staðið jafn vel og eins lengi og sú brúin, sem kostaði 78 þús. kr. Ef hlaup koma í ána, þá yrði, að skoðun þessara manna, hvorritveggja brúnni jafn hætt. Á þetta vildi jeg benda, til þess að vekja athygli manna á því, að þetta mál er ef til vill ekki enn rannsakað svo sem skyldi.

Þá skal jeg víkja fáeinum orðum að símunum. Háttv. þm. N.-Þing. (B. S.) þótti við nefndina, fyrir uppástunguna um að fresta lagningu nýrra síma, svo framarlega sem sýnilegt væri, að tekjur landsjóðs hrykkju ekki fyrir útgjöldunum. — Jeg lít svo á, að þetta sje bæði sanngjarnt og sjálfsagt. Nú er alt efni til síma mjög dýrt, og er þá sjáanlegt, að það er beinlínis »praktiskt« að fara hjer eftir tillögum nefndarinnar og heimila að fresta lagningu nýrra síma, meðan svo er ástatt.

Jeg gleymdi áðan einni athugasemd í sambandi við aðstoðarmann vitamálaverkfræðingsins. Athugasemdin á reyndar ekki frekar við hann en aðra starfsmenn landsins. Mjer finst það vera mjög óviðkunnanlegt, þegar þeir, sem hafa föst laun, heimta aukaborgun fyrir flest eða alt, sem þeir gjöra, ef þeir ekki telja það beint skyldu sína, og jafnvel hvort sem er. Mjer finst það helst til langt gengið. Og yfirleitt má segja að peningagræðgi sumra starfsmanna landsins gangi hneyksli næst.

Þá er eitt atriði enn, sem jeg vildi minna á. Það er um styrkinn til húsabóta á Bergsstöðum í Svartárdal. Mjer finst það mjög einkennilegt, að háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) skuli koma fram með slíka tillögu, annar eins sparnaðarmaður og hann þykist vera. Jeg skal minna á það, að það hefir verið farið með þetta mál inn á þingið alveg á bak við stjórnina, og án þess að leita álita hennar. Það má ekki minna vera, en að hún fái að segja álit sitt um málið. Að öðru leyti skal jeg geta þess, að seinast þegar jeg kom að Bergsstöðum, þá voru þar ekkert verri húsakynni en alþýða manna á jafnaðarlegast við að búa.

Um hússtjórnarskólabygginguna á Akureyri ætla jeg ekki að tala mikið. Að eins vil jeg geta þess, að sje skólanum ætlað að vera húsmæðraskóli fyrir Norðurland alt, þá ætti hann ekki, að mínu áliti að vera í kaupstað. Mjer virðist síst vera ástæða til að fjölga kaupstaðaskólunum, úr því sem komið er. Það hefir enda of mikið verið gjört að því, að flytja skólana úr sveitunum og í kaupstaðina, og skal jeg því sambandi minna á Möðruvallaskólann, sem illu heilli var fluttur til Akureyrar. Svo framarlega sem þetta á að vera skóli fyrir húsmæður í sveitum, þá á skólinn vitanlega að vera á hentugum stað í sveit.