23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Ráðherra:

Jeg vildi leyfa mjer að gjöra fáeinar athugasemdir við ræðu háttv. samþm. míns (S. S.). Hann kvað fjárlaganefnd hafa ætlast til þess, að jeg ynni að útgáfu dómasafnsins. Jeg man nú satt að segja ekki vel, hvort hann nefndi bitling í því sambandi, en þá skýringu get jeg gefið honum til vonar og. vara, að hjer er ekki um feitan bita að ræða. Jeg hefi hjer í höndum brjef frá sjálfum mjer til fyrrverandi stjórnar, sem fjárlaganefndin hefir góðfúslega ljeð mjer, þar sem jeg vek athygli stjórnarinnar á því, að þörf sje á, að dómasafnið sje gefið út. Það má vel vera, að háttv. samþm. minn hafi ekki sjeð þetta brjef, en það skiftir ekki svo miklu máli, því að hann getur fengið að sjá það hjá mjer nú þegar. En þótt nú svo hefði verið, sem ekki var, að ákveðinn maður hefði verið nefndur til þessa starfs, þá skiftir það engu, því að þetta verk er ekki svo vandasamt. Það er ekki innifalið í öðru en að afrita dómabækurnar, og hefði háttv. samþm. minn verið lögfræðingur, þá hefði jeg alveg óhræddur þorað að fela honum starfið, upp á það að gjöra, að hann myndi hafa getað leyst það sómasamlega af hendi. Mjer hefir og skilist á fjárlaganefndinni, að hún væri mjer samdóma um það, að útgáfa þessi væri í alla staði þarfleg.

Mjer fanst háttv. samþm. minn komast að þeirri niðurstöðu, að styrkinn til lista og vísinda bæri að takmarka sem allra mest. Nú vildi jeg leyfa mjer að minna háttv. samþm. minn á það, að á þingmálafundi, sem haldinn var af kjósendum okkar í sumar að Húsatóttum á Skeiðum, og þar sem við báðir vorum viðstaddir, var samþykt ljómandi góð tillaga í garð listamanna með öllum atkvæðum. Var þar samþykt að skora á Alþingi að veita listamönnum hæfilegan styrk, og margir vildu meira að sega hafa það ríflegan styrk. Í byrjun fundarins kom einmitt fram tillaga um að spara þessa styrkveitingu, en þá risu upp þrír menn, hver á fætur öðrum, er allir sýndu fram á, að heimskulegt væri að hafa á móti þessari styrkveitingu. Allur þingheimur sá, að þeir höfðu rjett að mæla, og var svo tillaga sú, er jeg nefndi áðan, um að veita listamönnum hæfilegan styrk, samþykt. Það er því áreiðanlega ekki í samræmi við vilja kjósenda okkar að vilja takmarka þessar styrkveitingar. Það er alt af einstaklega gott að vera fyrst og fremst sannfærður um gott málefni og svo að hafa vilja kjósenda, til þess að ýta undir sig, er á þing er komið! Það er alveg rjett, að atvinnuvegina á að styrkja af öllum mætti, en andlegi gróðurinn má ekki kyrkjast heldur, en það hlýtur hann að gjöra ef listamenn vorir, hverju nafni sem nefnast, eru látnir hanga á horriminni ár eftir ár. (Sigurður Sigurðsson: Það gjöra nú fleiri). Má vera að svo sje, en engan ráðunautinn hefi jeg sjeð, er ekki hefir þrifist vel. (Hlátur).

Þá mintist háttv. samþm. minn (S. S.) á gerlana í sambandi við það, er jeg sagði. Jeg vil síst neita því, að mikla þýðingu hefir það, að mjólkursýrugerlar og ostagerlar o. s. frv. sjeu rannsakaðir sem best, en mjer hefir þó ætíð skilist, að ekki væri síður nauðsynlegt an rannsaka manngerlana. Sú fræðigrein mun þó engu síður hafa rjett á sjer en hin, og hefðum við verið nokkrum öldum á. undan í því efni, þá hefðu ekki pestir og drepsóttir höggvið eins tilfinnanlegt skarð í þjóðarmeið vorn Íslendinga, eins og t. d. Stórabóla gjörði árið 1707, svo jeg nefni að eins eitt dæmi. Þá hefðu manngerlarnir verið betur rannsakaðir. (Bjarni Jónsson: Hver á að verða til þess að rannsaka sparsemdargerilinn?) Sparsemdargerilinn hygg jeg að snjallast væri að láta hv. samþm. minn (S.S.) og hv, þm. Dal. (B. J.) rannsaka í sameiningu, og sjá svo að hvaða niður stöðu þeir kæmust í því efni. Það er síður en svo, að jeg hafi nokkuð á móti gerlafræðingi þeim, er hjer er um að ræða, eða sje mótfallinn því, að hlynt sje að honum, en jeg álít, að Alþingi eigi að vera sjálfu sjer samkvæmt, og ekki að ganga algjörlega fram hjá öðru, en taka hitt, þegar líkt stendur á og hjer í þessu tilfelli.